Vogaskóli fær minningarverðlaun Arthurs Morthens í ár fyrir fjölbreytta kennsluhætti fyrir öll börn með alls konar þarfir. Verðlaunin eru nú veitt í þriðja sinn og bárust alls sex tilnefningar um jafnmarga skóla eða Hólabrekkuskóli fyrir Sýndarveruleikaver, Melaskóli fyrir jólaleikrit allra nemenda í 7. bekk skólans, Rimaskóli fyrir leiklistarstarf, frjálsar íþróttir og skák í þágu allra nemenda, Seljaskóli fyrir þrjú ólík námsver fyrir nemendur á mismunandi aldursstigum, Sæmundarskóli fyrir markvissa notkun viðbóta í google classroom námsumsjónarkerfi til móts við einstaklingsþarfir og að lokum Vogaskóli fyrir fjölbreytta kennsluhætti fyrir öll börn með alls konar þarfir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

„Eftir vandlega athugun komst dómnefnd að þeirri niðurstöðu að veita bæri Vogaskóla verðlaunin að þessu sinni m.a. vegna þess að starfsfólk skólans hafi á undanförnum árum leitast við að hugsa út fyrir rammann hvað varðar fjölbreyttar þarfir nemendahópsins. Í skólanum starfar heilsueflandi teymi „Láttu þér líða vel“ með áherslu á geðrækt og er m.a. boðið upp á slökun í tónlistarstofu skólans áður en kennsla hefst. Í námsveri starfar lestrarhundur fyrir börn sem eiga á brattann að sækja varðandi lestur og/eða eiga erfitt tilfinningalega. Einnig kemur lestraramma í skólann einu sinni í viku. Aukið vægi er á list- og verkgreinar fyrir nemendur sem henta betur slíkar áherslur,“ segir í tilkynningunni.

Nemendalýðræði er áhersluþáttur í skólastarfinu og þess gætt að raddir nemenda hljómi í skólastarfinu. Nefna má að nemendur sitja sjálfir teymisfundi um sín mál frá miðstigi og upp úr, hafa þar áhrif og leggja fram sínar áherslur. Námsver er starfandi við skólann og geta nemendur sjálfir haft frumkvæði að því að leita þar inn. Sérhæfð deild fyrir nemendur með einhverfu starfar einnig við skólann og leggur starfsfólk hennar metnað sinn í gagnvirka tengingu deildarinnar við bekk hvers nemanda í deildinni.

Arthur Morthens, sem lést árið 2016, helgaði starfsævi sína börnum sem áttu á brattann að sækja og var jafnframt talsmaður þeirra í réttindabaráttu sem oft á tíðum var erfið. Hann á mikið í þróun sérkennslu í Reykjavík. Í ágúst 2016 samþykkti skóla- og frístundaráð að veita árlega, í fimm ár, einum grunnskóla í borginni viðurkenningu fyrir störf í þágu stefnunnar „skóli án aðgreiningar“ og að viðurkenningin skyldi bera yfirskriftina Minningarverðlaun Arthurs Morthens.

Dómnefndin var skipuð þeim Láru Guðrúnu Agnarsdóttur frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Anni G. Haugen frá Barnaheillum, Sædísi Ósk Harðardóttur frá Félagi sérkennara á Íslandi og Sigríði Björk Einarsdóttur frá SAMFOK, ásamt tveimur fulltrúum frá skrifstofu skóla- og frístundasviðs.

Verðlaunin er málverk eftir listamanninn Tolla, sem ber nafnið „Lýsing“ ásamt verðlaunaskjali.