Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hefur hafnað að veita Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 í loftlínu og vill að hún verði lögð með jarðstreng.

Áður höfðu Reykjanesbær, Hafnarfjörður og Grindavík samþykkt umsókn Landsnets fyrir framkvæmdinni, með atkvæðum allra bæjarfulltrúa.

Landsnet segist ekki geta lagt til að Suðurnesjalína 2 verði lögð í jarðstreng. Það sé ekki í samræmi við raforkulög, stefnu stjórnvalda um lagningu raflína í flutningskerfi og að rannsóknir við undirbúning verksins hafi sýnt að svæðið væri útsett fyrir jarðskjálftum og eldgosum.

Líkt og farið hefur ekki fram hjá neinum stendur eldgos yfir við Fagradalsfjall á Reykjanes og mikil skjálftavirkni var í aðdraganda þess.

Niðurstaðan bæjarstjórnarinnar er vonbrigði að sögn Guðmundar Inga Ásmundssonar, forstjóra Landsnets sem standi nú frammi fyrir erfiðri stöðu og framhald málsins sé óljóst. Hann segir Landsnet lengi hafa talað fyrir bættu afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum og væri Suðurnesjalína 2 þáttur í því.

„Í ljósi þess að jarðhræringar og eldgos gætu staðið yfir í lengri tíma er það ekki ásættanlegt fyrir íbúa og fyrirtæki á svæðinu sem er miður ” segir Guðmundur Ingi.

Undirbúningur fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 hefur staðið yfir lengi og upphaflega var stefnt að því að hefja framkvæmdir við hana í fyrra. Umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi til sveitarfélaganna fjögurra byggði á samþykktri kerfiáætlun og „ítarlegum undirbúningi þar sem lagt var mat á umhverfisáhrif ólíkra valkosta og hagsmunaaðilum tryggð aðkoma í gegnum vandað samráðsferli,“ að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.