Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur veitt tímabundna undanþágu á reglugerð um hollustuhætti sem kveður á um bann hunda á gististöðum til sjö hótela Íslandshótela. Hundar eru nú leyfðir á hótelum keðjunnar í Reykholti, Stykkishólmi, Patreksfirði, Húsavík, Fáskrúðsfirði, Öræfasveit og á Grand Hóteli í Reykjavík. Undanþágan gildir til 1. október á þessu ári.

Í beiðni um undanþágu sem send var ráðuneytinu 12. maí síðastliðinn kemur fram að ástæður beiðninnar séu fordæmalausar aðstæður í þjóðfélaginu vegna COVID-19, fækkun erlendra ferðamanna og aukin hundaeign landsmanna. „Hundaeign landsmanna hefur aukist undanfarin ár og teljum við að með því að bjóða gistingu þar sem hundar eru leyfðir þá náum við að koma til móts við og uppfylla þarfir hundaeigenda.“

Undanþágan er bundin ýmsum skilyrðum sem lúta til dæmis að þrifum, hreinlæti og ábyrgð. Hundar skulu vera í búrum á herbergjum hótelanna, þeir skulu ekki valda ónæði, aðrir gestir hótelsins skulu vera upplýstir um að hundar séu leyfilegir og þeir eru aðeins leyfilegir á ákveðnum svæðum hótelanna. Þá skal áætlun um þrif vera í samræmi við að hundar dvelji á hótelunum.

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, segir íslenskt ferðafólk afar áhugasamt um að taka hundinn með í ferðalagið og að breytingarnar fari vel af stað. „Áhuginn er mikill og við sjáum að það verður töluvert um þetta þegar fjölskyldur fara í ferðalög í júlí,“ segir hann.

„Þeir sem hafa komið með hunda til okkar eru mjög ánægðir og þetta hefur gefist mjög vel. Það eru auðvitað strangar reglur og við förum eftir þeim, hundar mega til dæmis ekki koma nálægt veitingasal,“ segir Davíð.

Þá segir hann Ísland að mörgu leyti aftarlega á merinni hvað varðar reglur um gæludýr. „Í mörgum öðrum löndum hafa gæludýr verið boðin velkomin á hinum ýmsu stöðum en ekki eins mikið hér. Þetta er þó að breytast og við erum farin að sjá meira af því að gæludýr séu boðin velkomin á kaffihús til dæmis,“ segir hann.

„En auðvitað eru tvær hliðar á þessu og það þarf að fara varlega. Það er fólk með bráðaofnæmi og annað slíkt svo það þarf að gæta allra reglna en í heildina litið er þetta jákvæð þróun myndi ég segja,“ bætir Davíð við.