Fjar­skipta­risinn Voda­fone hefur á­kveðið að fjar­læga tækni­búnað frá kín­verska fyrir­tækinu Huawei úr kjörnum í fjar­skipta­neti sínu í Evrópu. Frétta­stofan Reu­ters segir að fyrir­tækið hafi tekið á­kvörðunina eftir að Bret­land tak­markaði að­komu fyrir­tækisins að upp­byggingu 5G-kerfisins þar í landi, og nýrra leið­beininga Evrópu­sam­bandsins um hvernig upp­bygging 5G-kerfis skal fara fram innan Evrópu.

Í leið­beiningum Evrópu­sam­bandsins ermælt gegn því að ríki yrðu of háð einum birgja og varað við því að er­lend ríki geti haft á­hrif á 5G-kerfi með því að setja þrýsting á fram­leið­endur tækni­búnaðar.

Huawei hefur verið sakað um að standa kín­verskum stjórn­völdum nærri og að búnaður fyrir­tækisins geti verið notaður í njósnir en því hefur fyrir­tækið al­farið neitað. Fyrir­tækið mun lík­lega koma að upp­byggingu 5G-nets á Ís­landi.

Bret­land hefur sett því miklar skorður hvar nota má tækni­búnað frá Huawei í dreifi­kerfinu. Þannig má ekki nota búnað frá þeim í kjörnum dreifi­kerfis ná­lægt her­stöðvum og kjarn­orku­verum. Banda­ríkja­menn hafa farið fram á að við­skipti við kín­verska fyrir­tækið verði af öryggis­á­stæðum al­farið bönnuð.

For­stjóri Voda­fone Group, Nick Read, sagði á blaða­manna­fundi að það að skipta út búnaðinum myndi taka fimm ár og kosta í kringum tvö hundruð milljónir evra. Hann sagði að breytingin myndi ekki hafa miklar breytingar í för með sér í Bret­landi, þar sem það hafi ekki notað búnað frá Huawei þar í landi.

Ekki hefur komið fram af hvaða fram­leið­endum Voda­fone Group mun kaupa búnað nú, en Read hefur gagn­rýnt þá nálgun Evrópu­sam­bandsins að hvetja ríki til að reiða sig ekki um of á einn fram­leiðanda þar sem slíkt geti komið niður á not­endum tækninnar.