Donald Trump, Bandaríkjaforseti, skrifaði í dag undir yfirlýsingu þar sem að yfirráð Ísraelsríkis yfir Gólanhæðum í norðausturhluta landsins eru viðurkennd en landsvæðið var hluti af Sýrlandi en var hernumið af Ísraelsríki árið 1967, að því er fram kemur á vef BBC. Benhamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael stóð við hlið forsetans á meðan hann skrifaði undir tilskipunina. Ísraelsríki lýsti því svo yfir árið 1981 að landsvæðið væri ísraelskt en það var ekki samþykkt af alþjóðasamfélaginu.

Netanyahu fagnaði ákvörðun forsetans innilega í dag og sagði hana „sögulegt réttlæti.“ Hann segir að Gólanhæðir hafi aldrei fyrr verið eins mikilvægar fyrir öryggi Ísrael en Ísraelsmenn segja að Íranir skjóti reglulega eldflaugum yfir landamærin frá Sýrlandi við hæðirnar. 

Sýrlensk yfirvöld hafa brugðist ókvæða við og segja ákvörðun Trump „blygðunarlausa árás á fullveldi sitt.“ Talsmaður Antonio Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, segir ljóst að opinber staða landsvæðisins sé óbreytt.