Kaþólska kirkjan í Pól­landi hefur viður­kennt að tæp­lega 400 prestar hennar hafi mis­notað 624 ung­menni kyn­ferðis­lega á árunum 1990 til 2018. Þar af er rúmur helmingur fórnar­lamba undir 15 ára aldri. 

Yfir­lýsing kirkjunnar kemur í kjöl­far skýrslu góð­gerða­sam­takanna Be Not Af­ra­id sem styðja við bakið á fórnar­lömbum sem orðið hafa fyrir kyn­ferðis­of­beldi af hálfu presta. Sam­tökin af­hentu Francis páfa skýrsluna á fundi sem hann hélt í febrúar um kyn­ferðis­of­beldi innan kirkjunnar. Allir helstu biskupar kirkjunnar voru saman komnir á fundinum. 

Skýrsla sam­takanna náði yfir um 400 brot kaþólskra presta og nafn­greindi 24 pólska biskupa sem hafa verið á­sakaðir um að hylma yfir kyn­ferðis­brot. Kaþólska kirkjan í Pól­landi nafn­greindi hins vegar enga em­bættis­menn sína í yfir­lýsingunni. 

Marek Jedraszewski, erki­biskup í Kraká, lét hafa eftir sér að kirkjan yrði að vera hörð í því að upp­ræta illsku en yrði þó einnig að sýna þeim ger­endunum miskunn sem iðruðust og leituðust við að betra sig. Við­brögð kirkjunnar hafa vakið harða gagn­rýni fyrir að standa ekki með fórnar­lömbum í málinu. 

Þá sagði Jonna Scheuring-Wi­elgus, þing­kona pólska þingsins og með­limur Be Not Af­ra­id sem kom að gerð skýrslunnar, að kaþólska kirkjan í Pól­landi hefði „hrækt í and­litið“ á fórnar­lömbum prestanna. „Í dag verndaði kirkjan sig sem stofnun, verndaði ger­endurna og neitaði að standa með fórnar­lömbum,“ sagði Scheuring-Wi­elgus og bætti við að kirkjan hefði hvergi komið að því hvernig hún ætlaði sér að bæta fórnar­lömbunum skaðann.