„Menn geta túlkað þetta á ýmsa vegu. Veiran er komin hér inn í sam­fé­lagið og rað­greiningin hefur sýnt það að þetta hefur komið hingað inn núna eftir þessar til­slakanir sem urðu síðustu mánaðar­mót og það er komin sam­fé­lags­leg út­breiðsla á þessum smitum,“ segir Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir vegna stöðunnar í far­aldrinum hér á landi.

Eins og fram hefur komið fundar ríkis­stjórnin nú um minnis­blað Þór­ólfs um að­gerðir á landa­mærunum. Í sam­tali við Frétta­blaðið segist Þór­ólfur ekki vilja ræða minnis­blaðið fyrr en ríkis­stjórnin hefur fjallað um það. „En ég hef bent á á­kveðna hluti sem ég tel vera til bóta.“

Þórólfur segir flesta af þeim sem greinast vera bólu­settir. Vitað var að bólu­settir geta enn tekið veiruna. „Menn geta litið á þetta út frá mörgum vinklum. Ég hef marg­oft bent á það að það virðist vera að vegna Delta af­brigðisins séu bólu­setningar ekki eins virkar eins og gegn öðrum af­brið­gum,“ segir hann.

„Rann­sóknir bæði frá Bret­landi, eins frá Spáni sýna að virknin gegn öllu smiti er svona kannski í kringum 60 prósent. Við bjuggumst við meiri virkni eins og sást gegn öðrum af­brigðum en gegn al­var­legum veikindum er hún 90 til 95 prósent,“ segir Þór­ólfur.

Að­spurður að því hvort að yfir­völd sjái mun á fjölda smitaðra með til­liti til þess hvaða bólu­efni við­komandi fékk segir Þór­ólfur öll bólu­efnin koma við sögu. „En sá hópur sem er mest að smitast og er mest út­settur og mest á ferðinni er mið­aldra og yngra fólk. Flest af þeim hefur verið bólu­sett með Jans­sen bólu­efninu, þannig við erum kannski að sjá það að­eins meira en önnur en það er ekki hægt að draga neinar sterkar á­lyktanir af því hvort eitt bólu­efni sé betra eða verra en önnur.“

Delta setur hjarðó­næmið ekki í upp­nám

Þór­ólfur segir Delta af­brigðið ekki setja um­ræðuna um hjarðó­næmi í upp­nám. „Nei, hjarðó­næmi er alltaf til staðar. Það er að segja, hjarðó­næmi þýðir bara hve stórt hlut­fall sam­fé­lagsins þarf að vera ó­næmt fyrir veirunni til að koma í veg fyrir út­breiddan far­aldur,“ segir Þór­ólfur.

Delta af­brigðið sé meira smitandi en önnur af­brigði og þar af leiðandi þurfi að ná hærra hlut­falli með ó­næmi. „Og þá kemur líka á móti að við vitum ekki hvað við þurfum að bólu­setja marga. Við getum ekki sagt að við þurfum að bólu­setja 60 til 70 prósent, ekki nema bólu­setningin sé þá 100 prósent virk. Þegar bólu­setningin er ekki 100 prósent virk þurfum við að bólu­setja fleiri til að ná þessu sama hjarðó­næmi. Þetta er svo­lítið flókið og menn eru svo­lítið að mis­skilja þessa um­ræðu um hjarðó­næmi finnst mér.“

Að­spurður út í á­form sem rædd hafa verið um að gefa þriðja skammtinn af bólu­efnum segir Þór­ólfur enga niður­stöðu komna í þau mál enn. Hann segir bólu­setningu í hópi 12-15 ára barna enn til skoðunar.

Hefurðu á­hyggjur af þessum hópi núna?

„Ef við hugsum um far­aldurinn sjálfan er mjög gott að geta bólu­sett alla. En þegar við erum að tala um börnin þarf líka að hugsa um hugsan­legar auka­verkanir af bólu­efninu versus á­hættan af smiti hjá þessum hópi,“ segir Þór­ólfur.

„Við vitum að börn smitast síður af veirunni og sýna minni ein­kenni og af­leiðingarnar eru ekki eins al­var­legar, svo við þurfum að vega þetta og meta alltaf, það er ekki nóg bara að hugsa um hjarðó­næmi og að ná sem flestum, við þurfum að­eins að staldra við, þannig það er enn til skoðunar,“ segir Þór­ólfur.

Hann bendir á að það sé hins­vegar búið að bólu­setja þá í þessum hópi sem eru með undir­liggjandi sjúk­dóma. Sömu­leiðis geti for­eldrar óskað eftir bólu­setninga barna sinna, en það kemur ekki til fram­kvæmdar fyrr en í ágúst.

Meiri hætta á smiti

Að­spurður út í stærstu úti­há­tíðir landsins sem fram­undan eru, líkt og Þjóð­há­tíð í Eyjum viður­kennir Þór­ólfur að smit­hættan sé meiri í slíkum að­stæðum.

„Við getum sagt að smit­hættan er meiri á svona stórum úti­há­tíðum þar sem fólk er í alls­konar á­sigu­komu­lagi og kannski ekki að passa sig í smit­vörnum,“ segir hann.

Þór­ólfur, sem er Eyja­maður, segist ekki hafa mætt á Þjóð­há­tíð í nokkur ár og árið í ár verði lík­legast ekki undan­tekning. „Ég hef ekki mætt í nokkur ár og fer ekki í ár,“ segir hann léttur í bragði.

Fréttablaðið/Óskar