Færeyska landsstjórnin verður af um 226 milljónum danskra króna eða sem nemur tæpum 4,9 milljörðum íslenskra króna á yfirstandandi ári vegna ákvörðunar um að hætta útboði á fiskveiðiheimildum.

Þetta kemur fram í nýlegu svari Jacobs Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, við fyrirspurn Høgna Hoydal, þingmanns Þjóðveldisflokksins. Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á svarinu á Facebook í gær.

„Á meðan stjórnmálamenn ákveða veiðigjald eða reiknireglur fyrir veiðigjald þá vitum við ekki hvað útgerðin er í raun tilbúin að greiða fyrir veiðiheimildirnar,“ segir Oddný.

Stjórnarskipti urðu í Færeyjum eftir kosningar síðastliðið haust og ákvað ný landsstjórn að gera breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Útboði á hluta aflaheimilda var hætt en fyrirkomulagið var tekið upp í tíð Høgna sem sjávarútvegsráðherra.

Oddný bendir á að í íslenska kerfinu sé nýliðun nánast ómöguleg nema í gegnum útboð sem útgerðarmenn standi sjálfir fyrir. „Það er nefnilega útboð á kvóta á Íslandi og það eru útgerðarmenn sem leigja frá sér á margföldu veiðigjaldi sem svo rennur í þeirra vasa.“

Hún segir að hægt væri að fara útboðsleið fiskveiðiheimilda á Íslandi í smáum skrefum. Kerfið í dag sé ekki réttlátt og hygli fáum.

Fjárhæðin sem færeyska landsstjórnin verður af nemur um 1,2 prósentum af landsframleiðslu eyjanna árið 2018 og um 3,3 prósentum af fjárlögum síðasta árs.