Settur ríkislögmaður hyggst leiða menn sem komu að rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmála sem vitni við aðalmeðferð máls Guðjóns Skarphéðinssonar gegn ríkinu sem fram fer 17. mars næstkomandi. Í málinu fer Guðjón fram á 1,3 milljarða í bætur frá ríkinu vegna Geirfinnsmálsins. Ríkið krefst sýknu af öllum kröfum Guðjóns.

Vill vernda vitnin fyrir aðkasti

Í undirbúningsþinghaldi fyrir aðalmeðferðina í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær sagði Andri Árnason, settur ríkislögmaður, að hann hefði hug á að leiða tvö vitni ef heilsa þeirra leyfir. Hann vildi ekki gefa upp nöfn vitnanna tveggja að svo stöddu til að vernda þau fyrir ágangi en lét þess þó getið að um væri að ræða aðila sem komu að rannsókn málanna. „Ég vil ekki að þeir verði fyrir einhverju aðkasti ef þeir ætla að koma hér fyrir dóm.“ Var lögmanninum gert að tilkynna dóminum um nöfn vitnanna viku fyrir aðalmeðferð.

Ragnar Aðalsteinsson sagðist hvorki myndu leiða réttarsálfræðinginn Gísla Guðjónsson né Jón Friðrik Sigurðsson geðlækni sem vitni vegna þess hve harðlega ríkið legðist gegn því.

Gísli og Jón Friðrik framkvæmdu ítarlega rannsókn á játningum í Geirfinnsmálinu með þeirri niðurstöðu að Guðjón hefði veitt falska játningu um aðild sína að hvarfi Geirfinns. Ríkislögmaður telur sérfræðiálit um falskar játningar ekkert sönnunargildi hafa í málinu eins og fjallað er um í greinargerð hans og Fréttablaðið hefur greint frá.

Óvíst er hvort Guðjón sjálfur gefi skýrslu við aðalmeðferðina en lögmaður hans lagði fram bókun frá honum í héraðsdómi í gær.

Ríkislögmaður ítrekaði áskorun um að stefnandi mætti sjálfur fyrir dóm og gæfi skýrslu um þau málsatvik sem hann byggir á. Lögmaður Guðjóns kvað ekki víst að hann ætti heimangengt sökum slæmrar heilsu.

Bréf Valtýs lagt fram

Meðal gagna sem settur ríkislögmaður hefur lagt fram er bréf sem Valtýr Sigurðsson lögmaður ritaði til forsætisráðherra fyrir hönd Magnúsar Leópoldssonar, Einars Bollasonar og Valdemars Olsen, dagsett 30. ágúst 2019.

Þremenningarnir sátu í gæsluvarðhaldi vegna Geirfinnsmálsins í á fjórða mánuð árið 1975. Í bréfinu er aðallega fjallað um Erlu Bolladóttur og rangar sakargiftir sem hún, Kristján Viðar Júlíusson og Sævar Marinó Ciesielski voru sakfelld fyrir.

Í þinghaldinu í gær lýsti lögmaður Guðjóns furðu sinni á því að bréf Valtýs væri meðal málsgagna og sagðist ekki fá skilið með hvaða hætti það kæmi málinu við.

Byggt á ábyrgð Guðjóns á óförum sínum

Í greinargerð byggir ríkið málatilbúnað sinn meðal annars á því að Guðjón hafi sjálfur stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir bótakröfur sínar á.

Um þetta er meðal annars vísað til málsatvika eins og þeim er lýst í sakfellingardómi Hæstaréttar frá 1980, en ríkislögmaður telur þann dóm hafa sönnunargildi um málsatvik þar eð sýknudómur Hæstaréttar frá því í fyrra fjalli ekkert um þau.

Önnur gögn á borð við sérfræðiálit um falskar játningar telur ríkislögmaður ekkert sönnunargildi hafa í málinu.

Ekki er í greinargerðinni heldur tekið mark á niðurstöðum Gísla Guðjónssonar réttarsálfræðings um falskan framburð Guðjóns, sem var meðal helstu forsendna þess að dómur Hæstaréttar var endurupptekinn.