Jón Bald­vin Hannibals­­son, fyrr­verandi sendi­herra og ráð­herra, var sýknaður í Héraðs­dómi Reykja­víkur í morgun af á­kæru fyrir kyn­­ferðis­­lega á­reitni á Spáni sumarið 2018.

Í dómi héraðs­dóms segir að vitnis­burður móður Car­menar Jóhannsdóttur, Lauf­eyjar Óskar Arnórsdóttur, sé ó­stöðugur og að hún muni ekki eftir at­burðum þessa kvölds eins glöggt og þá.

Þá segir að vitnis­burður hennar sé „um sumt“ ó­sam­rýman­legur vitnis­burði Car­menar og að þá fái vitnis­burður Car­menar ekki þá stoð sem þarf af öðrum vitnis­burði eða gögnum málsins svo að hægt sé að nota hann til grund­vallar niður­stöðu í málinu, gegn neitun Jóns Bald­vins.

Þá segir að hans vitnis­burður sé studdur af tveimur vitnum og að sam­kvæmt því sé ó­sannað að hann hafi strokið Car­­men „utan klæða upp og niður eftir rassi“ eins og hann var á­kærður fyrir.

Hægt er að lesa dóminn hér.

Jón Bald­vin greindi sjálfur frá því þegar hann var á­kærður fyrir brotið 7. septem­ber 2020, í að­­sendri grein í Morgun­blaðinu.

Car­­men greindi fyrst frá hinu meinta at­viki, sem átti sér stað á Spáni, í við­tali við Stundina. Þar sagði hún frá því hvernig Jón Bald­vin á­reitti hana kyn­­ferðis­­lega á heimili hans og eigin­­konu hans í bænum Salobreña í Anda­lúsíu þann 16. júní 2018 að loknum leik Ís­lands og Argentínu í heims­­meistara­­mótinu í knatt­­spyrnu.