Stjórnarmenn Lindarhvols og lögmaður ríkisins í Lindarhvolsmálinu hittust á fundi í Seðlabankanum og undirbjuggu vitnisburði sína í málinu. Meðal fundarmanna var sitjandi hæstaréttardómari.
Við aðalmeðferð í Lindarhvolsmálinu, sem fram fór í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni, kom í ljós að Steinar Þór Guðgeirsson lögmaður hafði verið „nánast allt í öllu“ hjá Lindarhvoli ehf., eignarhaldsfélaginu sem fjármálaráðherra stofnaði til að annast og selja stöðugleikaeignir sem slitabú föllnu bankanna afhentu ríkinu.
Lindarhvoll var rekinn frá lögfræðistofu Steinars Þórs, sem hafði yfirráð yfir bæði netfangi og síma félagsins. Fram kom að hvorki Steinar Þór né stjórn félagsins gerðu tilraun til að verðmeta eignirnar sem félagið annaðist og seldi. Í vitnisburði Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi ríkisendurskoðanda, kom fram að Klakki ehf., en Lindarhvolsmálið snýst um meinta annmarka í söluferli Klakka, var seldur á hálfan milljarð þegar raunverulegt verðmæti félagsins var milljarður.

Sigurður varpaði einnig fram þeirri spurningu hvers vegna ríkið hefði stofnað þetta eignarhaldsfélag þar sem Steinar Þór Guðgeirsson var „nánast allt í öllu“. Af vitnisburði Steinars Þórs og annarra vitna virðist sem stjórn Lindarhvols hafi lítið sinnt þeirri skyldu sinni að gæta hagsmuna eiganda félagsins, íslenskra skattgreiðenda. Steinar hafi leikið nokkuð lausum hala við ráðstöfun gríðarlega verðmætra eigna félagsins.
Eitt vitnið í Lindarhvolsmálinu lýsti söluferli Klakka sem „sjoppulegu“ og gerólíku því sem tíðkast með söluferli eigna almennt. Venjan væri að seljendur reyndu að verðmeta eignirnar til að fá sem hæst verð fyrir þær. Svo hefði ekki verið í tilfelli Lindarhvols varðandi Klakkasöluna. Raunar hefði virst sem enginn áhugi væri á að fá tilboð í eignina. Samkvæmt þessu virðist stjórn Lindarhvols hafa brugðist því grundvallarhlutverki sínu að gæta hagsmuna eiganda félagsins.

Í kjölfar bankahrunsins voru stjórnendur og stjórnarmenn föllnu bankanna sóttir til saka og meðal annars ákærðir og dæmdir fyrir umboðssvik á þeim grunni að þeir hefðu ekki gætt hagsmuna eigenda bankanna.
Þrír sátu í stjórn Lindarhvols ehf. Þórhallur Arason, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu til áratuga, var stjórnarformaður. Aðrir stjórnarmenn voru Ása Ólafsdóttir, þá dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Haukur Camillus Benediktsson, þá framkvæmdastjóri Eignasafns Seðlabanka Íslands.

Þórhallur hefur síðan látið af störfum fyrir aldurs sakir, en Ása var skipuð hæstaréttardómari árið 2020 og Haukur var ráðinn framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans árið 2019. Þau þóttu bæði hæfust umsækjenda um þær stöður. Óvíst er hvort hæfnisnefnd hefur horft sérstaklega til stjórnarstarfa þeirra í Lindarhvoli við mat á hæfni þeirra.
Athygli vakti að fram kom í málflutningi að öll stjórn Lindarhvols hefði, ásamt Steinari Þór Guðgeirssyni, lögmanni ríkisins, og Esther Finnbogadóttur, sem sat í varastjórn Lindarhvols, komið til fundar í húsi Seðlabankans í aðdraganda aðalmeðferðar málsins til að rifja upp málið. Öll fimm eru lykilvitni í málinu en vitnum er óheimilt að bera saman bækur sínar áður en vitnisburður er gefinn fyrir dómi.
Í 3. málsgrein 21. greinar siðareglna lögmanna segir: „Lögmanni er heimilt að hafa samband við vitni í máli til að kanna hvað það getur borið um atvik og, ef því er að skipta, til að gera því kleift að búa sig undir vitnaleiðslu … Hafi lögmaður samband við vitni ber honum að gæta viðeigandi tillitssemi og forðast að hafa áhrif á framburð vitnisins.“
Lögmenn sem Fréttablaðið ræddi við telja ákvæðið heimila fund lögmanns með einu vitni en ekki hópi vitna, og hvað þá þegar lögmaðurinn er sjálfur vitni í málinu. Athygli vekur að sitjandi hæstaréttardómari sat þennan fund. Viðmælendur Fréttablaðsins úr lögmannastétt vildu ekki tjá sig undir nafni en telja hæstaréttardómara eiga að vita betur en að sitja svona vitnafund.