Stjórnar­menn Lindar­hvols og lög­maður ríkisins í Lindar­hvols­málinu hittust á fundi í Seðla­bankanum og undir­bjuggu vitnis­burði sína í málinu. Meðal fundar­manna var sitjandi hæsta­réttar­dómari.

Við aðal­með­ferð í Lindar­hvols­málinu, sem fram fór í Héraðs­dómi Reykja­víkur í vikunni, kom í ljós að Steinar Þór Guð­geirs­son lög­maður hafði verið „nánast allt í öllu“ hjá Lindar­hvoli ehf., eignar­halds­fé­laginu sem fjár­mála­ráð­herra stofnaði til að annast og selja stöðug­leika­eignir sem slita­bú föllnu bankanna af­hentu ríkinu.

Lindar­hvoll var rekinn frá lög­fræði­stofu Steinars Þórs, sem hafði yfir­ráð yfir bæði net­fangi og síma fé­lagsins. Fram kom að hvorki Steinar Þór né stjórn fé­lagsins gerðu til­raun til að verð­meta eignirnar sem fé­lagið annaðist og seldi. Í vitnis­burði Sigurðar Þórðar­sonar, fyrr­verandi ríkis­endur­skoðanda, kom fram að Klakki ehf., en Lindar­hvols­málið snýst um meinta ann­marka í sölu­ferli Klakka, var seldur á hálfan milljarð þegar raun­veru­legt verð­mæti fé­lagsins var milljarður.

Þórhallur Arason var stjórnarformaður Lindarhvols.
Fréttablaðið/GVA

Sigurður varpaði einnig fram þeirri spurningu hvers vegna ríkið hefði stofnað þetta eignar­halds­fé­lag þar sem Steinar Þór Guð­geirs­son var „nánast allt í öllu“. Af vitnis­burði Steinars Þórs og annarra vitna virðist sem stjórn Lindar­hvols hafi lítið sinnt þeirri skyldu sinni að gæta hags­muna eig­anda fé­lagsins, ís­lenskra skatt­greið­enda. Steinar hafi leikið nokkuð lausum hala við ráð­stöfun gríðar­lega verð­mætra eigna fé­lagsins.

Eitt vitnið í Lindar­hvols­málinu lýsti sölu­ferli Klakka sem „sjoppu­legu“ og ger­ólíku því sem tíðkast með sölu­ferli eigna al­mennt. Venjan væri að selj­endur reyndu að verð­meta eignirnar til að fá sem hæst verð fyrir þær. Svo hefði ekki verið í til­felli Lindar­hvols varðandi Klakka­söluna. Raunar hefði virst sem enginn á­hugi væri á að fá til­boð í eignina. Sam­kvæmt þessu virðist stjórn Lindar­hvols hafa brugðist því grund­vallar­hlut­verki sínu að gæta hags­muna eig­anda fé­lagsins.

Haukur Camillus Benediktsson sat í stjórn Lindarhvols.
Fréttablaðið/AntonBrink

Í kjöl­far banka­hrunsins voru stjórn­endur og stjórnar­menn föllnu bankanna sóttir til saka og meðal annars á­kærðir og dæmdir fyrir um­boðs­svik á þeim grunni að þeir hefðu ekki gætt hags­muna eig­enda bankanna.

Þrír sátu í stjórn Lindar­hvols ehf. Þór­hallur Ara­son, skrif­stofu­stjóri í fjár­mála­ráðu­neytinu til ára­tuga, var stjórnar­for­maður. Aðrir stjórnar­menn voru Ása Ólafs­dóttir, þá dósent við laga­deild Há­skóla Ís­lands, og Haukur Camillus Bene­dikts­son, þá fram­kvæmda­stjóri Eigna­safns Seðla­banka Ís­lands.

Ása Ólafsdóttir var stjórnarmaður í Lindarhvoli.
Mynd/aðsend

Þór­hallur hefur síðan látið af störfum fyrir aldurs sakir, en Ása var skipuð hæsta­réttar­dómari árið 2020 og Haukur var ráðinn fram­kvæmda­stjóri fjár­mála­stöðug­leika­sviðs Seðla­bankans árið 2019. Þau þóttu bæði hæfust um­sækj­enda um þær stöður. Ó­víst er hvort hæfnis­nefnd hefur horft sér­stak­lega til stjórnar­starfa þeirra í Lindar­hvoli við mat á hæfni þeirra.

At­hygli vakti að fram kom í mál­flutningi að öll stjórn Lindar­hvols hefði, á­samt Steinari Þór Guð­geirs­syni, lög­manni ríkisins, og Esther Finn­boga­dóttur, sem sat í vara­stjórn Lindar­hvols, komið til fundar í húsi Seðla­bankans í að­draganda aðal­með­ferðar málsins til að rifja upp málið. Öll fimm eru lykil­vitni í málinu en vitnum er ó­heimilt að bera saman bækur sínar áður en vitnis­burður er gefinn fyrir dómi.

Í 3. máls­grein 21. greinar siða­reglna lög­manna segir: „Lög­manni er heimilt að hafa sam­band við vitni í máli til að kanna hvað það getur borið um at­vik og, ef því er að skipta, til að gera því kleift að búa sig undir vitna­leiðslu … Hafi lög­maður sam­band við vitni ber honum að gæta við­eig­andi til­lits­semi og forðast að hafa á­hrif á fram­burð vitnisins.“

Lög­menn sem Frétta­blaðið ræddi við telja á­kvæðið heimila fund lög­manns með einu vitni en ekki hópi vitna, og hvað þá þegar lög­maðurinn er sjálfur vitni í málinu. At­hygli vekur að sitjandi hæsta­réttar­dómari sat þennan fund. Við­mælendur Frétta­blaðsins úr lög­manna­stétt vildu ekki tjá sig undir nafni en telja hæsta­réttar­dómara eiga að vita betur en að sitja svona vitna­fund.