Líkur eru á að Donald Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seti, verði sýknaður af kæru til em­bættis­missis af öldunga­deild Banda­ríkja­þings eftir að full­trúa­deildar­þing­menn sem fyrir mála­rekstrinum hættu skyndi­lega við að kalla til vitni í málinu, að­eins nokkrum klukku­stundum eftir að hafa farið fram á það. Lík­legt þykir að mála­rekstrinum ljúki síðar í dag og dómur falli.

Demó­kratar gerðu sam­komu­lag við lög­­fræði­teymi for­­setans fyrr­verandi um að lagt yrði fram sem máls­skjal með vottuðum vitnis­burði Jaime Her­rera Beutler, full­­trúar­­deildar­þing­manni Repúblikana frá Was­hington­­ríki, þar sem segir að henni hafi borist til eyrna að Trump hefði tekið af­­stöðu með þeim sem réðust á þing­húsið 6. janúar.

Jaime Her­rera Beutler, sem til stóð að bæri vitni gegn Trump.
Fréttablaðið/EPA

Fyrr í dag kaus öldunga­deildin um að leyfa vitnis­burð við réttar­höldin og Demó­kratar stefndu Jaime Her­rera Beutler til að bera vitni. Það var gert með vísan til yfir­lýsingar hennar frá því í gær þar sem hún lýsti því hvernig Kevin Mc­Cart­hy, leið­togi minni­hluta Repúblikana í full­trúa­deildinni, hefði sagt henni frá sím­tali við for­setann er á­rásin á þing­húsið stóð yfir og þar sem Trump mun hafa sagt að á­rásar­mönnunum væri meira um­hugað um úr­slit for­seta­kosninganna þann 4. nóvember en Mc­Cart­hy. Demó­kratinn Joe Biden vann af­gerandi sigur í þeim en Trump sætti sig ekki við þá niður­stöðu.

Fulltrúadeildarþingmaðurinn Jamie Raskin, einn af þeim sem fer fyrir málinu gegn Trump.
Fréttablaðið/AFP

Vitna­leiðslur hefðu gert það að verkum að réttar­höldin hefðu tekið afar langan tíma og með­limir beggja flokka virðast vilja að málinu ljúki sem fyrst. Demó­kratinn og full­trúa­deildar­þing­maðurinn Jamie Raskin frá Mary­land­ríki, sem fer fyrir mála­rekstrinum gegn Trump sagði við upp­haf þeirra að hann vildi stuttar vitna­leiðslur.

„Við teljum að við höfum sannað mál okkar,“ sagði Raskin eftir að öldunga­deildin kom saman í morgun og tók málið gegn for­setanum fyrr­verandi fyrir. Hann sagði yfir­lýsingu Beautler vera afar mikil­vægt sönnunar­gagn sem styddi við á­kæruna á hendur Trump.

Nú þegar samið hefur verið um að engar vitna­leiðslur fari fram hafa lög­fræði­teymi Trump og kær­enda tvo tíma til að fara með sín loka­rök í málinu. Skömmu síðar er gert ráð fyrir að kosið verði um kæruna og gerir New York Times ráð fyrir að Trump verði sýknaður af kæru til em­bættis­missis.