Rann­sókn lög­reglunnar á Suður­landi á bana­slysinu í malar­námu í Þrengslunum í síðustu viku er í fullum gangi. Lög­reglan óskaði eftir að­stoð vitna og segir Oddur Árna­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá lög­reglunni á Suður­landi, að vitni hafa stigið fram gefið lögreglu grófa mynd á tíma­setningu slyssins.

Karlmaður á sextugsaldri fannst látinn um sjö að morgni til skammt frá jarðýtu á fimmtudaginn. Málið er rannsakað sem slys.

„Við erum búin að fá sím­töl frá fólki sem var þarna á ferðinni um kvöldið og nóttina, sem hafði ýmist séð ljós í fjallinu eða ekki og við erum komnir með grófa mynd á tíma­setningu,“ segir Oddur.

Slysið átti sér stað að nóttu til þegar jarð­ýta sem maðurinn stjórnaði virðist hafa farið fram af brún og fallið ofan í námuna úr mikilli hæð.

Fá utanaðkomandi aðstoð við rannsókn á jarðýtunni

„Einn þáttur í rann­sókninni er krufning á líkinu á þeim látna. Það eru ein­hverjar vikur í niður­stöður úr því. Annar þáttur er rann­sókn á tækinu sjálfu,“ segir Oddur.

Maðurinn var á Lieb­herr jarð­ýtu sem er í eigu GT verk­taka en jarð­ýtan var flutt á Sel­foss á laugar­daginn og mun sér­fræðingur hjá lög­reglunni vinna í að skoða tækið á næstu vikum.

„Við erum ekki með neinn sér­hæfðan búnað til að lesa úr stjórn­búnaði á svona tæki þannig það þarf að gera og græja. Þetta er eitt­hvað sem er í ferli,“ segir Oddur.

„Okkar sér­fræðingur vinnur rann­sóknina en hann þarf að sækja sér tæki og tól til um­boðsins á Ís­landi eða jafn­vel er­lendis,“ segir Oddur að lokum.