Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, vitnar í tíu ára gamla sænska skýrslu í svari sínu við fyrirspurn Ólafs Þórs Gunnarssonar, þingmanns VG, um aðgerðir til að draga úr notkun á nagladekkjum.

Í sænsku skýrslunni er bent á að mikill öryggisávinningur sé af negldum hjólbörðum ef ekið er reglulega á ísilögðum vegum eða vegum með þjöppuðum snjó, sérstaklega á bifreiðum sem ekki eru útbúnar stöðugleikakerfi.

Eftir því sem næst verður komist ruddi stöðugleikakerfi í bifreiðum sér til rúms árið 2006 og er nú orðinn staðalbúnaður.

Í samanburði við landsbyggðina er fremur sjaldgæft að snjó festi á götum á höfuðborgarsvæðinu en í skýrslunni segir að enginn ávinningur sé af notkun nagladekkja á blautu og þurru malbiki. Þá segir enn fremur í svari Sigurðar Inga að nagladekk nýtist betur í dreifbýli en þéttbýli.

Reykjavíkurborg hefur ítrekað krafist lagaheimildar svo banna megi notkun nagladekkja innan borgarinnar en án árangurs fram til þessa. Þarf reglulega að mælast til að leikskólabörn á höfuðborgarsvæðinu leiki sér ekki úti vegna mikillar svifryksmengunar. Í skýrslu Vegagerðarinnar frá síðasta ári er bent á að nagladekk eigi stóran þátt í myndun svifriks.

Í svari Sigurðar segir að í umferðarlögum sé Vegagerðinni og sveitarstjórnum veitt heimild til að takmarka eða banna umferð um stundarsakir á vegi eða svæði þegar mengun er yfir heilsufarsmörkum eða hætta sé talin á að svo verði. Ráðuneytið hafi sett reglugerðardrög í samráðsgátt stjórnvalda þar sem þessar heimildir eru útfærðar nánar. Hann hafi ekki rætt um samvinnu við við heilbrigðisyfirvöld vegna svifryksvandans en bendir á að ráðuneytið eigi fulltrúa í starfshópi um loftgæði.