Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, vill að íslensk stjórnvöld hætti að niðurgreiða tengiltvinnbíla og dýra rafbíla.

Svíar hafa ákveðið að herða verulega losunarskilyrði fyrir ívilnunum vistvænni bifreiða eftir því sem kom fram í gær í sænska ríkisútvarpinu. Meðal annars hafa Svíar ákveðið í umhverfislegu tilliti að hætta að niðurgreiða stærri tengiltvinnbíla og dýra rafbíla.

„Til hvers að greiða niður tengil­tvinnbíla sem losa töluvert magn af gróðurhúsalofttegundum? Af hverju ættum við að niðurgreiða dýra rafmagnsbíla?“ spyr Árni.

Hann bendir á að fáir hafi efni á að kaupa dýra rafmagnsbíla hér á landi. Þeir sem hafi auraráð til þess þurfi ekki á niðurgreiðslu frá ríkinu að halda.

„Vitlausast er að niðurgreiða tengil­tvinnbíla fyrir bílaleigur, því rafmagnið er búið þegar komið er að Straumsvík frá Leifsstöð.“