Ný ferðaleið um Suðurland liggur á milli þriggja vita og er ætluð íslenskum sem erlendum ferðalöngum.

Vitaleiðin er ný leið á Suðurlandi sem verður formlega opnuð í dag. Leiðin teygir sig um suðurströndina í gegnum Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri og hana má fara gangandi, hlaupandi, ríðandi eða hjólandi.

Nafngiftin er tilkomin vegna vitanna Selvogsvita og Knarrarósvita, sem marka upphaf og enda leiðarinnar, en að auki er þriðji vitinn á leiðinni Hafnarnesviti í Þorlákshöfn.

„Við vildum skoða hvort hægt væri að vinna með einhverjar nýjar þemaleiðir og þá kom hugmyndin upp um vitana,“ segir Laufey Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Suðurlands. „Vitarnir hafa lengi vísað sjófarendum til lands svo okkur datt í hug að nýta þá líka til að leiðbeina ferðamönnum.“

„Okkar verkefni var að ramma þetta betur inn, sjá hvort það væru einhverjar hættur og auðvitað að kynna leiðina.“

Laufey segir að einnig hafi verið horft til þéttbýla á svæðinu, Stokkseyrar, Eyrarbakka og Þorlákshafnar, sem hún telur ekki hafa fengið verðskuldaða athygli.

Leiðin er unnin í samstarfi við sveitarfélag Árborgar og Ölfuss, en einnig var kallað til þjónustuaðila á svæðunum á vinnustofur, til að draga saman einkenni hvers svæðis fyrir sig. „Hvert þorp hefur sitt sérkenni þótt ekki sé langt á milli,“ segir Laufey. „Það var gaman að heyra hvað þjónustuaðilar voru glaðir með að láta leiða sig svona saman og sjá endalaus tækifæri skapast með Vitaleiðinni.“

Einn helsti kosturinn við leiðina er að hún er að stórum hluta annaðhvort sandfjara eða malbikaður stígur, svo ekki þurfti að leggja í neina meiri háttar stígagerð.

„Okkar verkefni var að ramma þetta betur inn, sjá hvort það væru einhverjar hættur og auðvitað að kynna leiðina,“ segir Laufey. „Leiðin er ekki stikuð svo það er gott að nýta strandlengjuna til að miða við, og ekki verra að dýfa tánum í Atlantshafið.“

Vonir eru bundnar við að bæði erlendir og íslenskir sæki ferðina og segir Laufey að auðvelt sé að skipta henni í tvennt, eða jafnvel þrennt, vilji fólk fara hana fótgangandi. „Þetta er tiltölulega auðveld ganga og í góðu veðri ætti þetta að vera á flestra færi,“ segir hún.

Leiðin verður vígð klukkan 13 á Stað á Eyrarbakka í dag. Fulltrúar Árborgar og Ölfuss klippa á borða, auk þess sem boðið verður upp á tónlistaratriði og fleira. Í Knarrarósvita flytur tónlistarkonan Kira Kira tónlist og í Hafnarnesvita verður boðið upp á listasmiðju fyrir börn.

„Ég vona að fólk mæti til að kynna sér þá frábæru upplifun í náttúru, menningu, sögu, afþreyingu og mat sem svæðið hefur upp á að bjóða,“ segir Laufey.