Víta­lía Lazareva og Arnar Grant hafa verð kærð til héraðs­sak­sóknara fyrir til­raun til fjár­kúgunar, hótanir og brot gegn frið­helgi einka­lífs. Þetta herma heimildir Frétta­blaðsins. Kær­endur eru Ari Edwald, Hregg­viður Jóns­son og Þórður Már Jóhannes­son.

Málið á rót að rekja til sam­kvæmis í sumar­bú­stað í Skorra­dal í októ­ber 2020.

Ekki hafði verið gert ráð fyrir Vítalíu í ferðinni, heldur voru þeir þar að skemmta sér Ari, Arnar, Hregg­viður, Þórður Már og Þor­steinn M. Jónsson. Úr varð að hún kæmi í bú­staðinn eftir vinnu og fer tvennum sögum um hvernig á því stóð. Var hún komin til þeirra um mið­nættið og var ölvun þá orðin tölu­verð í bú­staðnum. Yfir­gaf Þor­steinn sam­kvæmið stuttu síðar.

Eftir umrætt kvöld munu engin sam­skipti hafa átt sér stað milli Ara, Hreggviðar og Þórðar annars vegar og Vítalíu hins vegar fyrr en ári síðar. Þann 28. októ­ber fengu þeir skila­boð frá henni þess efnis að hún hyggðist leita réttar síns vegna at­vika sem í bú­staðnum hefðu orðið.

Fyrir há­degi næsta dag, 29. októ­ber 2021 leituðu þeir Ari, Hregg­viður og Þórður skýringa á skila­boðunum hjá Arnari Grant, sem gat engar skýringar gefið.

Síð­degis þennan sama dag birti Víta­lía frá­sögn á Insta­gram þess efnis að brotið hafi verið á henni kyn­ferðis­lega í heitum potti í sumar­bú­stað ári áður og birti hún nöfn Ara, Hregg­viðs, Þórðar Más og Arnars Grant. Færslan var tekin niður síðar sama dag.

Arnar sem hafði verið í hópi þeirra sem sakaður var um brot í fyrr­nefndri færslu Vítalíu, mun dagana á eftir hafa af­greitt færsluna sem bull, en er svo sagður hafa snúið af þeirri braut nokkru síðar og farið að styðja frá­sögn Vítalíu og breiða hana út.

Símtöl, skilaboð og nafnlaus bréf

Í kæru sem lög­menn Ara, Hregg­viðar og Þórðar af­hentu á skrif­stofu Héraðs­sak­sóknara síðast­liðinn föstu­dag er byggt á því að Víta­lía og Arnar Grant hafi staðið sam­eigin­lega að at­burða­rás gegn mönnunum þremur og fjölskyldum þeirra í nóvember og desember í fyrra.

Þann 25. nóvember er hringt úr númeri Vítalíu í Ara og Þórð. Hvorugur svarar síma en Ari hringdi til baka og ræddi við Vítalíu. Mun hún hafa óskað eftir af­sökunar­beiðni og beðið um að Arnar Grant yrði látinn í friði.

Sama dag ræddu Víta­lía og Eggert Þór Kristófers­son, þá­verandi For­stjóra Festi hf. saman í síma. Greindi hún honum frá meintu of­beldi af hálfu Þórðar Más sem þá var stjórnar­for­maður Festi. Hún sagði honum að hún hygðist kæra þá alla til lög­reglu og væri auk þess búin að fara yfir málið með blaða­manni.

Í einka­skila­boðum milli Arnars Grant og Vítalíu, sem Arnar færði lögmanninum Sigurði G. Guð­jóns­syni síðar, segist hún hafa rætt aftur við Eggert og af skila­boðunum að dæma virðist Eggert hafa lagt til ein­herja sátta­til­lögu. Arnar spyr þá hvort hann hafi nefnt upp­hæðir og kveður Víta­lía nei við því. Hann hafi bara spurt hve háar fjár­hæðir og hún hafi ekki svarað því.

Þann 26. nóvember sendi Víta­lía skila­boð til sonar eins mannana og greindi honum frá því að hún hygðist kæra föður hans.

Sagði rúss­neska lög­fræðinga komna í málið

Þann 27. nóvember fengu eigin­konur Hregg­viðar og Þórðar skila­boð frá Vítalíu um hin meintu brot.

Sama dag óskaði hún eftir síma­fundi við Hregg­við. Í því sím­tali mun hún hafa tjáð honum að rúss­neskir lög­fræðingar væru að vinna að málinu hennar og að þeir væru staddir á heimili hennar í Mos­fells­bæ.

„Þið fenguð heilan mánuð en þið hafið ekki gert fucking neitt,“ er haft eftir henni úr um­ræddu sam­tali við Hregg­við. Þá mun hún hafa lagt á­herslu á að Arnar Grant yrði látinn í friði og að komið yrði vel fram við hann og ekki mætti reka hann úr golf­hópnum Stullunum sem þeir áttu aðild að þre­menningarnir, Arnar og fleiri.

Þann 2. desember átti Víta­lía sím­tal við Þórð á­þekkt fyrrnefndum sím­tölum hennar við Ara og Hregg­við.

Sama dag fóru að berast um­slög í bréfa­pósti, bæði til fjöl­skyldu­með­lima mannana og sam­starfs­manna þeirra í við­skipta­lífinu.

Í um­slögunum, sem voru stíluð á til­tekna við­tak­endur með rauðum túss­penna, voru út­prentuð skjá­skot af færslu Vítalíu á Instagram á­samt miða með orðunum: „Hver borgaði milljónir fyrir þögnina“ og „hver átti húsið með heita pottinum?“

Meðal þeirra sem fengu slíkar póst­sendingar voru kona Þórðar, stjórnar­konur í Festi, fram­kvæmdar­stjóri Krónunnar og stjórnar­for­maður og fram­kvæmdar­stjóri Mjólkur­sam­sölunnar. Síðar í mánuðinum fékk kona Hregg­viðs einnig slíka sendingu.

3 x 50 milljónir „eftir skatta“

Um sama leiti og skeyta­sendingar gengu sem harðast, leituðu kær­endur til lög­manns sem þekkti til fjöl­skyldu Vítalíu í þeim erinda­gjörðum að biðja hann að setja sig í sam­band við hana í því skyni að komast að því hvað vekti fyrir henni.

Er lög­maðurinn talinn mikil­vægt vitni um at­vik máls en hann er sagður hafa borið skila­boð frá Vítalíu og Arnari til kær­enda. Fundaði hann þrisvar sinnum með Vítalíu og er Arnar sagður hafa verið með henni á tvemur þeirra funda, sem ráð­gjafi hennar. Fundir þessir fóru fram 8. og 14. desember.

Heimildir blaðsins herma að lög­maðurinn hafi borið þre­menningunum þau skila­boð frá Vítalíu og Arnari að greiða þyrfti al­vöru fjár­hæð til að allir gengju stoltir frá borði og hefðu hags­muni af því að þegja.

Taldi lögmaðurinn framan af að gerð væri krafa upp á fimm­tíu milljónir en meðal gagna málsins er einnig skjá­skot af skila­boðum til lög­mannsins með hug­mynd um greiðslu upp á 3 sinnum þá fjár­hæð, sam­tals 150 milljónir „eftir skatta“ eins og það er orðað. Er í kærunni gengið út frá því að skila­boðin séu frá Vítalíu en Frétta­blaðið hefur ekki fengið stað­fest að svo sé.

Um útfærsluna segir í skilaboðunum: „Þá þarf að stilla því upp að þetta er upphæðin eftir skatt svo ekki séu svona brellur eins og þeir voru með síðast. Hvort hægt sé að greiða fyrir ráðgjöf og setja það þannig upp eða eins og sé verið að greiða fyrir hugvit eða slíkt.“

Þá er Víta­lía sögð hafa sent einum mannanna einka­skila­boð, daginn eftir síðasta fundinn með lög­manninum, með við­vörun um að hún hefði heyrt sögu um refsi­vert at­hæfi eins barna hans. Í kærunni segir að skila­boðin hafi vakið ugg hjá manninum um að náinn fjöl­skyldu­með­limur hans yrði næst fyrir barðinu á henni.

Meint kyn­ferðis­brot enn ekki kærð til lög­reglu

Í kæru þre­menningana kemur fram það mat að bæði sím­töl og skila­boð Vítalíu og nafn­lausu bréfin sýni á­setning til fjár­kúgunar og að um­rætt fram­ferði hafi haft þann til­gang að auka líkur á að fjár­kúgun bæri árangur.

Einnig er vísað til endur­tekinna hótana um að þeir verði kærðir til lög­reglu eða hafi jafn­vel þegar verið kærðir fyrir kynferðisbrot.

Fram kemur að þeir hafi allir þrír aflað stað­festingar á því hjá ríkis­lög­reglu­stjóra að engin kæra um kyn­ferðis­brot hafi verið lögð fram á hendur þeim.

Í mars á þessu ári birti Víta­lía á sam­fé­lags­miðlum mót­töku­kvittun frá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu þess efnis að hún hefði pantað tíma til að leggja fram kæru. Ekki fylgdu upp­lýsingar um hvort hún hefði mætt á lög­reglu­stöð til að fylgja tíma­pöntuninni eftir en í við­tölum við fjöl­miðla sagðist hún hafa kært þá þrjá, Ara, Hregg­við og Þórð.

Þeir hafna í þessu í sinni kæru, vísa til vott­orðs frá Ríkis­lög­reglu­stjóra og segja ekkert mál af þessum toga til rann­sóknar á hendur þeim hjá lög­reglu.

Vítalía og Arnar sögð margsaga um málsatvik

Af þeim gögnum sem Frétta­blaðið hefur séð virðist málið taka nokkrum stakka­skiptum eftir því hvernig sam­bandi þeirra tveggja, Vítalíu og Arnars er háttað. Er þannig nokkuð breytilegt hvort Arnar Grant er talinn til sökunauta í máli Vítalíu og að sama skapi allur gangur á því hvort Arnar segist trúa frásögn Vítalíu eða ekki.

Í upp­hafi kvað Arnar Vítalíu hafa farið með rangt mál en snéri svo af þeirri braut og studdi frá­sögn hennar. Sam­kvæmt upp­lýsingum Frétta­blaðsins beitti Víta­lía sér fyrir því að Arnar yrði tekinn í sátt meðal vina sinna eða yrði látinn í friði. Arnar er sagður hafa verið stuðnings­maður Vítalíu og ráð­gjafi á fundum með fyrr­nefndum lög­manni, þar sem rætt var um greiðslur og lausn málsins í lok nóvember og fram yfir miðjan desember.

Um síðustu jól virðist eitt­hvað koma upp á. Víta­lía birti nei­kvæðar færslur um Arnar á sam­fé­lags­miðlum 26. desember og sagði hann hafa fengið sig til að segja ó­satt. Í einka­skila­boðum þeirra á milli, sem Arnar lét Sigurð G. Guð­jóns­son lög­mann hafa, vandar Víta­lía honum ekki kveðjurnar. „Af­sökunar­beiðni og helmingur af peningunum er ekki lengur inni – Þú ert einn eins og þú vildir,“ skrifar hún til Arnars.

Við­tal við Vítalíu í hlað­varps­þættinum Eigin konur fer í loftið nokkrum dögum síðar, þann 4. janúar og fjallar það að miklu leyti um sam­band hennar við Arnar þótt einnig sé vikið er að at­burðum í sumar­bú­staðnum haustið 2020.

Í kjöl­farið ýmist létu þeir af stjórnar­for­mennsku fé­laga sinna eða misstu störf sín. Hregg­viður lét af stjórnar­for­mennsku í Veritas og Þórður vék úr stjórn Festar. Arnar Grant fór í leyfi frá sínum störfum í World Class og Ara var sagt upp störfum hjá Ísey út­flutningi þar sem hann hafði gegnt stöðu fram­kvæmdar­stjóra.

Vildi koma Arnari aftur í golf

Nú í vor virðist aftur hafa dregið til tíðinda í sam­bandi þeirra Vítalíu og Arnars. Þrátt fyrir að Arnar hafi verið í aðalhlutverki í frásögn Vítalíu í hlaðvarpsþættinum, er hann ekki meðal þeirra sem hún sagðist hafa kært til lögreglu í mars síðastliðnum.

Seint í maí síðastliðnum setti Víta­lía sig í sam­band við með­lim golfhópsins Stullarnir.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins lýsti hún ó­á­nægju með að bæði Hregg­viður og Þórður fengju að spila með hópnum, en ekki Arnar og óskaði hún skýringa á þessu.

Sam­kvæmt upp­lýsingum blaðsins hringdi Víta­lía aftur viku síðar til að kanna hvort afstaða hafi verið tekin innan golfhópsins og fékk þau svör að Stullarnir vilji ekki dragast inn í málið.

Enn hringdi hún nokkrum dögum síðar og spurði hvort það hafi á­hrif á af­stöðu hópsins ef Arnar Grant stigi opin­ber­lega fram og styðji frá­sögn hennar. Biður hún um að fundað verði um málið hjá hópnum, geri Arnar það. Næsta dag fékk við­komandi skila­boð frá henni um að um­ræddar upp­lýsingar væru komnar á netið. Vísar hún þar til frétta með við­tali við Arnar sem segist nú muni bera vitni í máli Vítalíu, fari það fyrir dóm.

Vikið er að þessum sam­skiptum við með­lim golf­hópsins í kærunni og talið fara í bága við á­kvæði um brot gegn frið­helgi einka­lífs að Vítalía og Arnar telji sig geta ráðið því með hverjum þeir þre­menningar verji sínum frí­tíma.

Einnig er vikið að fjölbreyttri afstöðu Arnars Grant til frásagnar Vítalíu af atburðum í sumarbústaðnum og vísað til þess að hann hafði áður vísað henni al­farið á bug, meðal annars með ítar­legri skrif­legri greiningu á hlað­varps­við­talinu sem fylgir kæru þre­menningana.

Þá eru tíðar breytingar á frásögnum Vítalíu og Arnars að lokum talin til marks um að þau séu marg­saga um at­vik málsins.