Vítalía Lazareva hefur farið í skýrslutöku hjá lögreglu vegna kynferðisbrotakæru hennar gegn Þórði Má Jóhannessyni, Hreggviði Jónssyni og Ara Edwald.

Stundin greinir frá.

Vítalía kærði mennina þrjá fyrir kynferðisbrot sem eiga að hafa átt sér stað í sumarbústað á Vesturlandi árið 2020.

Réttargæslumaður Vítalíu staðfestir að hún hafi gefið skýrslu vegna kærunnar hjá lögreglu á mánudaginn síðastliðinn í samtali við Stundina.

Fréttablaðið greindi frá því í lok júní að Þórður Már, Hreggviður og Ari hefðu kært Vítalíu og Arnar Grant til héraðssaksóknara fyrir tilraun til fjárkúgunar, hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífs.

Í sömu frétt var greint frá því að þremenningarnir hefðu allir aflað staðfestingar á því hjá ríkislögreglustjóra að engin kæra um kynferðisbrot hafi verið lögð fram á hendur þeim.

Í kjölfarið baðst Vítalía sjálf afsökunar á því að hafa brugðist öðrum þolendum og á að hafa ekki vitað betur og vísaði hún til þess að hafa aldrei lagt neina formlega kæru fram í málinu.

Vítalía lagði fram bréf til kærumóttöku kynferðisbrota í mars en hún hefur sjálf greint frá því að hafa aldrei farið í skýrslutöku vegna málsins fyrr en nú síðastliðinn mánudag samkvæmt Stundinni.

Vítalía steig fram í viðtali í hlaðvarpsþættinum Eigin konur í upphafi árs en þar greindi hún frá meintum kynferðisbrotum.

Í viðtalinu nafngreindi Vítalía ekki þremenningana en það hafði hún gert á Instagram-síðu sinni í október í fyrra.

Í kjölfar viðtalsins viku þeir Þórður Már, Hreggviður og Ari úr störfum sínum en ásamt þeim lét Logi Bergmann Eiðsson einnig úr sínu starfi en nafn hans var einnig borið upp í máli tengdu Vítalíu.