Hin 24 ára gamla Víta­lía Lazareva er gestur Eddu Falak í nýjasta þætti hlað­varpsins Eigin konur. Þar segir Víta­lía frá því að hún hyggist leita réttar síns eftir að hafa orðið fyrir kyn­ferðis­of­beldi af hálfu þriggja eldri karl­manna er hún var í ástar­sam­bandi með fé­laga þeirra.

Víta­lía hefur greint frá málinu á sam­fé­lags­miðlum á undan­förnum vikum. Hún segist hafa átt í ástar­sam­bandi í meira en ár við giftan mann á fimm­tugs­aldri sem er þjóð­þekktur og eigi börn. Þau hafi kynnst í líkams­ræktar­stöð þar sem hann starfi sem einka­þjálfari. Í upp­hafi hafi það snúist um að hann ætlaði að veita henni að­stoð í ræktinni en það undið upp á sig og orðið að ástar­sam­bandi.

Eftir að þau höfðu átt í sam­bandi í nokkrar vikur var henni boðið í sumar­bú­stað af manninum, þar sem hann dvaldi á­samt þremur vinum sínum sem eru mun eldri en hún.

Eiga börn á hennar aldri

„Þessir menn eru allir eldri en for­eldrar mínir, hann er yngstur í þessum vina­hópi. Þeir eiga börn á mínum aldri. Þetta eru tölu­vert eldri menn en ég og jafn­vel eldri en mínir for­eldrar,“ segir Víta­lía í þættinum. Er í bú­staðinn var komið hafi maðurinn farið í heita pottinn án klæða sem henni hafi þótt það ó­þægi­legt. Hún og vinir hans hafi síðan gert það sama.

„Ég á vini sem hafa farið saman í pottinn og það er ekkert svona að gerast í pottinum, það er alveg hægt að fara í pottinn án þess að svona gerist. Þetta er orðinn nektar­pottur áður en ég veit af, þrátt fyrir það er það ekki af­sökun fyrir því að framin séu brot í pottinum,“ segir hún. Þar hafi vinir mannsins káfað á sér en hún ekki sagt neitt þar sem hún hafi viljað ganga í augu á manninum sem hún átti í sam­bandi við.

„Maður er í þessum að­stæðum og frýs og segir ekkert. Svo horfi ég framan í þennan mann, sem ég mæti fyrir, og hann segir ekki neitt. Ég gerði ýmis­legt held ég til að ganga í augun á honum. Hann er aðal­kallinn þetta kvöld sem kemur með mig og ég geri ýmis­legt þarna og leyfi ýmis­legu að ganga á til að ganga í augun á honum,“ segir Víta­lía.

„Ég er ekki að fara að segja nei við vini hans, slá þá og segja þeim að drulla sér af mér. Þetta fór alveg yfir öll mörk sem hægt var að fara yfir. Fólk áttar sig ekki á því hversu stórt þetta var, margir halda að þetta hafi verið „bara“ þukl en þetta fór yfir öll mörk hjá öllum.“

Kyn­ferðis­legur greiði til að kaupa þögn

Ástar­sam­band hennar og gifta mannsins hafi haldið á­fram eftir þetta og hún hafi gert allt til að ganga í augunum á honum. Henni var síðar boðið í golf­ferð með honum og þar hafi þjóð­þekktur maður gengið inn á þau. Ást­maður hennar hafi síðan sagt að til þess að kaupa þögn vinarins þyrfti hún að veita honum kyn­ferðis­legan greiða.

„Ég horfi framan í hann þegar vinur hans er að fara niður á mig og ég á að vera að fara niður á hann. Ég horfi í augun á honum, ég er farin að gráta og segi honum að ég vil þetta ekki. Hann segir við mig að þetta verði allt í lagi því hann er með mér“, segir hún.

„Hvað átti ég að gera? Átti ég að hlaupa út? Ég gat ekki einu sinni farið á bílnum mínum því þetta var á einka­vegi sem var lokaður, ég geti ekki farið án þess að hliðið var opnað fyrir mér.“