Vítalía Lazareva hefur beðist afsökunar á því að hafa brugðist öðrum þolendum og biðst afsökunar á að hafa ekki vitað betur.
Í afsökunarbeiðni sinni, sem hún birti í kvöld á Twitter, vísar hún til þess að í mars greindi hún frá því að hún hafi lagt fram bréf til kærumóttöku kynferðisbrota en eins og hefur verið greint frá í vikunni þá hefur engin kæra verið formlega lögð fram.
Vítalía segir í færslu sinni á Twitter að hún geti ekki borið ábyrgð á fréttaflutningi um málið en að hún hafi lagt fram bréfið og birti svo mynd af því á Twitter til staðfestingar. Hún segir að hún hafi ávallt haldið að það „þýddi eitthvað“ en að hún hafi ekki mætt í skýrslutöku og hafi aldrei haldið öðru fram.
„Ég biðst afsökunar. Afsökunar á að vita ekki betur,“ segir hún að lokum.
Mig langar að biðjast afsökunar, afsökunar á því að hafa brugðist öðrum þolendum og langar til að einblína á að ég get ekki tekið ábyrgð á öllum fréttaflutning.Ég lagði fram bréf til kærumóttöku kynferðisbrota sl mars hjá lögreglunni og setti mynd hér inn því til staðfestingar.
— Vítalía Lazareva (@LazarevaVitalia) June 29, 2022
Ég hef alltaf haldið að það að fylla út slíkt blað með fyrirspurnum og spurningum hvað varðar kynferðisbrot þýddi “eitthvað”. Ég hef ekki mætt í skýrslutöku eins og hefur oft komið fram og hef ég aldrei sagt annað. Ég biðst afsökunar. Afsökunar á að vita ekki betur.
— Vítalía Lazareva (@LazarevaVitalia) June 29, 2022
Kærð fyrir tilraun til fjárkúgunar
Vítalía hefur í vikunni verið nokkuð í fréttum eftir að hún og Arnar Grant voru bæði kærð fyrir tilraun til fjárkúgunar. Hún hefur ekki svarað ítrekuðum símtölum eða skilaboðum Fréttablaðsins en birti þessi skilaboð á Twitter í kvöld eftir að hafa opnað síðu sína á samfélagsmiðlinum aftur en hún lokaði öllum sínum samfélagsmiðlum fyrir stuttu.
Kærendur eru Ari Edwald, Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson. Málið á rót að rekja til samkvæmis í sumarbústað í Skorradal í október 2020. Ari sagði í gær í fréttum að það hefði verið erfið ákvörðun að leggja fram kæruna. Arnar Grant sagði fyrr í dag að kæra mannanna væri afleit tilraun til að afvegaleiða umræðuna.