Yfir­völd í Mari­posa-sýslu í Kali­forníu hafa loks gefið út hvað varð þriggja manna fjöl­skyldu og fjöl­skyldu­hundinum að bana um miðjan ágúst síðast­liðinn.

Hjónin Jon­a­t­han Gerrish og Ellen C­hung og eins árs dóttir þeirra héldu í göngu á vin­sælu úti­vistar­svæði um miðjan ágúst­mánuð og stóð til að koma heim síðar sama dag.

Barn­fóstra fjöl­skyldunnar til­kynnti hvarf fjöl­skyldunnar til lög­reglu daginn eftir þar sem hún kom að tómu húsi. Lög­regla fór að grennslast fyrir um málið og kom þá í ljós að Gerrish hafði ekki til­kynnt for­föll frá vinnu.

Leit hófst í kjöl­farið og fannst fjöl­skyldan, auk fjöl­skyldu­hundsins, látin skammt frá staðnum þar sem þau höfðu lagt bíl sínum. Engir á­verkar voru á líkunum og leiddi bráða­birgða­rann­sókn krufningar ekki hugsan­lega dánar­or­sök í ljós.

Nú er endan­leg niður­staða krufningar komin og sam­kvæmt henni varð of­hitnun fjöl­skyldunni að bráð. Mjög heitt var á þessum slóðum um­ræddan dag og fór hitinn um tíma yfir 40 gráður í sólinni. Skógar­eldar geisuðu á þessu svæði í fyrra og af þeim sökum var lítið skjól að hafa frá gróðri og trjám í sumar­sólinni um­ræddan dag.

Gerrish var með 2,5 lítra vatns­poka með­ferðis en hann var tómur þegar fjöl­skyldan fannst. Talið er fjöl­skyldan hafi ör­magnast eftir að hafa lagt um átta kíló­metra að baki.