Aðstandendur bandarísks karlmanns, Gary Frank Sotherdem, vita loks hver örlög hans urðu 47 árum eftir að hann hvarf í óbyggðum Alaska. New York Times fjallar um þetta.
Gary og félagi hans hugðust ganga með fram hinni tæplega þúsund kílómetra Porcupine-á í norðausturhluta Alaska árið 1976 og mætast nokkurn veginn á miðri leið. Gary skilaði sér hins vegar aldrei á áfangastað og var gerð ítarleg leit að honum í kjölfarið.
Árið 1977 fann fjallaleiðsögumaður tjaldið sem Gary dvaldi í, brotin gleraugu hans og persónuskilríki en Gary var hvergi sjáanlegur, lífs eða liðinn.
Það var svo ekki fyrr en árið 1997 að veiðimaður á svæðinu fann höfuðkúpu skammt frá staðnum þar sem síðast var vitað um ferðir Garys. Á síðasta ári var loks tekið DNA-snið og kom það nokkurn veginn heim og saman við DNA-snið sem náskyldur frændi Garys hafði gefið.
Það fékkst síðan endanlega staðfest um hvern var að ræða þegar bróðir Garys, Steve Sotherden, lét taka úr sér DNA-sýni.
Í umfjöllun New York Times kemur fram að áverkar, líklegast eftir skógarbjörn, hafi fundist á höfuðkúpunni og bendir flest til þess að Gary hafi látist eftir árás bjarnarins.
Steve segir að Gary hafi flutt til Alaska árið 1972 og verið mjög ævintýragjarn og yfirleitt farið eigin leiðir í lífinu. Hann segir í samtali við Syracuse.com að fjölskyldan muni halda minningarathöfn í heimabæ þeirra bræðra í vor.