Fangelsismálastjóri, Páll E. Winkel, segir að fangelsismálayfirvöld taki það alvarlega sem kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsdeildar Amnesty um aðbúnað einstaklinga sem vistaðir eru í einangrun til verndar rannsóknarhagsmunum meðan á gæsluvarðhaldi þeirra stendur.
„Við tökum það alvarlega þegar alþjóðlega eftirlitsstofnanir gera athugasemdir og munum bregðast við því sem kemur okkur við,“ segir Páll en í skýrslunni segir Amnesty einangrunarvist gæsluvarðhaldsfanga sé beitt óhóflega á Íslandi.
Frá því að skýrslan kom út á þriðjudag hefur til dæmis Þroskahjálp tekið undir ákall Amnesty um breytingar á verklagi auk þess sem einstaklingar sem hafa verið látnir sæta einangrun hafa lýst upplifun sinni.
„Það sem snertir okkur snýr helst að inntaki einangrunarinnar. Að hafa frumkvæði að því að veita þessum einstaklingi aðgengi að DVD-spilara, bókasafni og bæta aðbúnað í útivist eins og hægt er,“ segir Páll og að það sé þó einnig að finna ábendingar sem eru samhljóma þeim sem fangelsismálayfirvöld hafa sjálf bent lengi á.
„Eins og við vitum lítið sem ekkert um þau sem koma í einangrunarvist,“ segir Páll og að annað sé það að menn séu ekki skoðaðir af heilbrigðisstarfsfólki strax við komu, heldur þegar það mætir á vakt. Þá tekur hann undir gagnrýni á að fatlaðir einstaklingar séu vistaðir í einangrun og segir þá ekki eiga erindi þangað.
„Það á jafnt við um einangrunarfanga og afplánunarfanga.“
Páll segir að þegar menn komi til þeirra þá beri þeim að tryggja rannsóknarhagsmuni en á sama tíma verði Fangelsismálastofnun að tryggja annan aðbúnað og að það sé gert sem hægt er til að tryggja að hún sé góð.

„Sálfræðingar og heilbrigðisstarfsfólk er með þessa einstaklinga í forgangi og þegar það var aukning til dæmis í nóvember var þetta fólk hérna látlaust að taka viðtöl,“ segir Páll og vísar þá til þess þegar hátt í 70 voru í gæsluvarðhaldi á sama tíma og um helmingur í einangrun.
Í skýrslu Amnesty er einnig bent á að aðstæður einangrunarfanga gætu verið betri og er bent á skyggð gler í klefanum. Hvað þau varðar segir segir Páll að tilgangur þeirra sé að koma í veg fyrir samskipti við fólk utan fangelsisins en að það verði að kanna hvort hægt sé að bæta útsýni úr klefunum. Hann segir að þrátt fyrir að fangelsið sé einangrað séu vegir í kring og að fólk geti kosið að koma að því ef það vill.
„Það má ekki gleyma því að í stórum málum hafa einstaklingar reynt að koma upplýsingum á milli og okkur ber að koma í veg fyrir það, en á sama tíma að gæta meðalhófs, og þess vegna eru þessar ábendingar mjög vel þegnar,“ segir Páll.
Spurður um til dæmis fangelsið á Hólmsheiði og möguleikann á því að aðskilja menn á ólíkum göngum fangelsisins segir Páll að ef það yrði gert væri á sama tíma verið að ráðstafa hluta fangelsisins fyrir þann hóp.
„Sú nýting yrði slæm og það er mjög mikill þrýstingur á fangelsiskerfið að nýta plássið. En þetta er þá eitthvað sem þarf að taka til skoðunar og taka ákvörðun um ef vilji er til þess.“