Ekki hefur verið gefið út hvað var í grun­sam­lega pakkanum sem barst bandaríska sendiráðinu í gær. Mikill viðbúnaður var við sendiráðið vegna málsins en innihald pakkans er nú til rannsóknar. Nokkrir starfs­menn sendi­ráðsins voru sendir upp á spítala í öryggis­skyni eftir að þau hand­léku pakkann. Ríkislögreglustjóri fer með rannsókn málsins en til rannsóknar eru meðal annars tengsl við álíka sendingar til sendiráðs Bandaríkjanna á Spáni og í Póllandi.

„Þetta er bara ó­sköp venju­legur dagur. Það eru allir í gír að vinna vinnuna sína, það er bara þessi venju­lega fimmtu­dags­stemning,“ segir Kristinn Gilsdorf, upp­lýsinga­full­trúi Banda­ríska sendi­ráðsins á Ís­landi. Í gær var mikill við­búnaður vegna grun­sam­legs pakka sem barst sendi­ráðinu.

„Starfs­fólkinu var ekki meint af og þau voru ekki að sýna nein ein­kenni. Starfs­fólkið var sent upp á spítala í var­úðar­skyni, en ég hef ekki heyrt neitt meira,“ segir Kristinn.

Pakka­sendingin var send til rann­sóknar hjá Há­skóla Ís­lands. Ekki er vitað hvert inni­hald sendingarinnar var, en Kristinn segir að sendi­ráðið sé að vinna náið með lög­reglunni í upp­lýsinga­öflun vegna málsins. Hann getur hins vegar ekki sagt hvaðan sendingin kom.

„Við erum ekkert að tjá okkur um hvaðan sendingin kom á meðan það er enn þá verið að rann­saka málið. Við erum að vinna náið með lög­reglunni að afla upp­lýsinga og það er verið að greina þetta efni,“ segir Kristinn.

Kristinn vill ekki tjá sig um hvort þetta sé í fyrsta sinn sem sendi­ráðinu berst grun­sam­leg sending.

„Það hefur komið fyrir í öðrum sendi­ráðum, ekki bara ameríska. Það er ekkert ó­al­gengt að sendi­ráði berist grun­sam­legar sendingar, en það þýðir ekkert að það hafi alltaf verið eitt­hvað hættu­legt,“ segir Kristinn.

Í svari frá em­bætti ríkis­lög­reglu­stjóra kemur fram að engar nýjar upp­lýsingar sé hægt að veita um sendinguna sem barst sendi­ráðinu.

„Engum varð meint af. Mjög snemma eftir að lög­regla kom á staðinn var hægt að draga úr við­búnaði,“ segir Gunnar Hörður Garðars­son upp­lýsinga­full­trúi em­bættisins.

Starfsmenn sendiráðsins sem handléku pakkann voru sendir á spítala í kjölfarið.
Fréttablaðið/Valli