Maðurinn, sem var vísað úr Víðinesi , úrræði fyrir heimilislausa, í byrjun mánaðar, er nú fluttur aftur inn í gamla íbúð sína í leyfisleysi. Að sögn íbúa vita bæði velferðarsvið og lögregla af ástandinu en aðhafast ekkert.

Algjört ráðaleysi

Fréttablaðið greindi frá ástandinu í byrjun mánaðar en íbúum úrræðisins stóð mikil ógn af manninum. Hann hafði áreitt íbúa, hótað þeim ofbeldi og haldið þeim vakandi á nóttunni með látum. Hann hafði verið fjarlægður fjórum sinnum af lögreglu en kom alltaf aftur. Að lokum var manninum formlega vísað úr úrræðinu og dót hans fjarlægt af heimilinu í byrjun októbermánaðar.

Öryggisverðir frá Securitas vakta úrræðið á nóttunni en að sögn íbúa hafa þeir ekki heimild til að fjarlægja manninn, sem birtist allt í einu aftur í íbúðinni nýlega. Hann er búinn að skipta um sílender í hurðinni og eru aðrir íbúar nú að verða ráðalausir. Það tekur lögreglu um 20 mínútur að koma sér í Víðines og íbúarnir segja það einstaklega áhyggjuvaldandi, komi eitthvað upp á.

Þeir kveðast vera búnir að láta lögreglu vita og velferðarsvið Reykjavíkurborgar, en enginn geri neitt í málinu. Húsnæðið er rekið af velferðarsviði en stefnt er á að loka því. Smám saman hafa íbúarnir verið færðir í önnur úrræði, en á meðan leitað er að úrræði fyrir aðra þurfa þau að bíða. Upphaf þess að Víðines var tekið í notkun var að hópur einstaklinga dvaldi á tjaldstæði í Laugardal við óviðunandi aðstæður.

Fréttablaðið greindi frá ótrúlegum frásögnum og aðstæðum sem íbúarnir búa við en maðurinn hefur til dæmis borað í gegnum veggi til annarra íbúa og í eitt skipti kveikti hann þá á öllum eldavélarhellunum í sameiginlega eldhúsinu og setti á þær eldfim efni. Reykskynjararnir fóru þá í gang og slökkvilið mætti á svæðið og fékk manninn fjarlægðan.