Héraðsdómur Norðurlands eystra herti í síðustu viku öryggisgæslu manns á þrítugsaldri með þeim hætti að hann verður fluttur fjarri íbúabyggð þar sem hann mun sæta gæslu allan sólarhringinn, verður alltaf að vera með gæslumanni utan dyra og auk þess sem tryggja ber að hann komist ekki í návígi við nein börn eða minni máttar.
Maðurinn er talinn mjög hættulegur börnum og kemur fram í skýrslu geðlæknis, sem reifuð er í dóminum, að ef hann fái tækifæri til muni hann misnota börn og jafnvel drepa þau.
Samkvæmt dóminum er maðurinn ósakhæfur og var því sýknaður af ákæru um að hafa ráðist á átta ára gamalt barn á leið heim úr skólanum með þeim hætti að hann tók það hálstaki, lyfti því upp og herti svo að barninu að það missti andann. Maðurinn hótaði enn fremur að drepa barnið en það hefur frá atvikinu átt erfitt með að vera eitt, vera úti að leika og hefur upplifað mikla vanlíðan.
Barnið losnaði ekki úr klóm mannsins fyrr en tveir gæslumann hans réðust á hann og yfirbuguðu hann með valdi.
Maðurinn játaði brotið gegn barninu en krafðist sýknu vegna ósakhæfi. Var hann sýknaður á grundvelli 15. greinar almennra hegningarlaga sem kveður á um að ekki eigi að refsa mönnum „sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands“ sem geri það að verkum að þeir séu ófærir til að stjórna gjörðum sínum.
Vistaður af barnavernd frá fimm ára aldri
Fram kemur í skýrslu geðlæknis í dómi héraðsdóms að maðurinn, sem er 23 ára, sé greindur með miðlungs þroskahömlun en greindarvísitala hans mælist 42. Þroski hans er metinn á við sex til níu ára gamalt barn auk þess sem hann er með verulega skerðingu atferlis, ADHD, mótþróaþrjóskuröskun og málhelti.
Maðurinn hefur átt við mikil hegðunarvandamál að stríða frá barnsaldri og hefur verið vistaður af barnavernd frá 15 ára aldri vegna þess hversu erfið og hættuleg hegðun hans var á heimili foreldra hans.
Þá kemur fram að maðurinn eigi sér langa sögu um að áreita börn og misnota þau kynferðislega allt frá því að hann var aðeins 11 ára gamall. Geðlæknirinn segir manninn heltekinn af barnagirnd og að allt hans líf snúist um það.
Í skýrslu geðlæknisins segir að maðurinn „hafi engar hömlur og sé ekki fær um að stöðva eigin langanir eða hegðun. Hann viti að það sé rangt að misnota börn, en skilji ekki alvarleika málsins og/eða tilfinningar annarra og stjórnist einungis af sínum eigin frumstæðu hvötum.“
Þá kemur einnig fram að hann hafi sætt þungri lyfjameðferð sem var ætlað að bæði bæta ástand hans og draga úr kynhvöt, árásarhneigð og þráhyggju hans en að meðferðin hafi litlu skilað, auk þess sem sálfræðimeðferð hafi engu skilað.
Mun misnota og jafnvel drepa barn fái hann tækifæri til þess
Það er mat geðlæknis að hann sé ófær um að stjórna gjörðum sínum, hann sé stöðugt hættulegur og fullfær um að skaða barn alvarlega og jafnvel drepa það með beitingu kynferðisofbeldis.
Þá telur geðlæknirinn það nánast öruggt að ef maðurinn fær tækifæri til að misnota barn þá muni hann grípa það og að þess vegna verði að vista hann ótímabundið í öryggisgæslu og gæta þess að hann komist aldrei út í samfélagið.
Manninum er núna aðeins gætt af tveimur karlmönnum en hann hefur ítrekað áreitt gæslumenn sína kynferðislega og beitt þau annars konar ofbeldi. Fram kemur í dómi að oft þurfi þó fleiri en tvo til að yfirbuga manninn og því bent á nauðsyn þess að jafnvel auka við mönnum í gæslu hans.
Að lokum er fallist á það í dómi að maðurinn sé mjög hættulegur umhverfi sínu, börnum og nauðsynlegt sé af réttaröryggisástæðum að herða það úrræði sem hann býr við og flytja hann í búsetu fjarri íbúabyggð. Slíka búsetu verði að binda því skilyrði að ákærði sæti stöðugri gæslu allan sólarhringinn, sé ætíð með gæslumanni utan dyra og komist hvorki í tæri við börn né minni máttar. Ef ekki er hægt að tryggja þessi skilyrði segir að það verði að vista manninn á lokaðri réttargeðdeild eða í öðru sambærilegu úrræði.