Héraðs­dómur Norður­lands eystra herti í síðustu viku öryggis­gæslu manns á þrí­tugs­aldri með þeim hætti að hann verður fluttur fjarri í­búa­byggð þar sem hann mun sæta gæslu allan sólar­hringinn, verður alltaf að vera með gæslu­manni utan dyra og auk þess sem tryggja ber að hann komist ekki í ná­vígi við nein börn eða minni máttar.

Maðurinn er talinn mjög hættulegur börnum og kemur fram í skýrslu geðlæknis, sem reifuð er í dóminum, að ef hann fái tækifæri til muni hann misnota börn og jafnvel drepa þau.

Samkvæmt dóminum er maðurinn ósakhæfur og var því sýknaður af ákæru um að hafa ráðist á átta ára gamalt barn á leið heim úr skólanum með þeim hætti að hann tók það háls­taki, lyfti því upp og herti svo að barninu að það missti andann. Maðurinn hótaði enn fremur að drepa barnið en það hefur frá at­vikinu átt erfitt með að vera eitt, vera úti að leika og hefur upp­lifað mikla van­líðan.

Barnið losnaði ekki úr klóm mannsins fyrr en tveir gæslu­mann hans réðust á hann og yfir­buguðu hann með valdi.

Maðurinn játaði brotið gegn barninu en krafðist sýknu vegna ósakhæfi. Var hann sýknaður á grund­velli 15. greinar al­mennra hegningar­laga sem kveður á um að ekki eigi að refsa mönnum „sökum geð­veiki, and­legs van­þroska eða hrörnunar, rænu­skerðingar eða annars sam­svarandi á­stands“ sem geri það að verkum að þeir séu ó­færir til að stjórna gjörðum sínum.

Vistaður af barnavernd frá fimm ára aldri

Fram kemur í skýrslu geð­læknis í dómi héraðs­dóms að maðurinn, sem er 23 ára, sé greindur með miðlungs þroska­hömlun en greindar­vísi­tala hans mælist 42. Þroski hans er metinn á við sex til níu ára gamalt barn auk þess sem hann er með veru­lega skerðingu at­ferlis, ADHD, mót­þróa­þrjósku­röskun og mál­helti.

Maðurinn hefur átt við mikil hegðunar­vanda­mál að stríða frá barns­aldri og hefur verið vistaður af barna­vernd frá 15 ára aldri vegna þess hversu erfið og hættu­leg hegðun hans var á heimili for­eldra hans.

Þá kemur fram að maðurinn eigi sér langa sögu um að á­reita börn og mis­nota þau kyn­ferðis­lega allt frá því að hann var að­eins 11 ára gamall. Geð­læknirinn segir manninn hel­tekinn af barnagirnd og að allt hans líf snúist um það.

Í skýrslu geð­læknisins segir að maðurinn „hafi engar hömlur og sé ekki fær um að stöðva eigin langanir eða hegðun. Hann viti að það sé rangt að mis­nota börn, en skilji ekki al­var­leika málsins og/eða til­finningar annarra og stjórnist einungis af sínum eigin frum­stæðu hvötum.“

Þá kemur einnig fram að hann hafi sætt þungri lyfja­með­ferð sem var ætlað að bæði bæta á­stand hans og draga úr kyn­hvöt, á­rásar­hneigð og þrá­hyggju hans en að með­ferðin hafi litlu skilað, auk þess sem sál­fræði­með­ferð hafi engu skilað.

Mun misnota og jafnvel drepa barn fái hann tækifæri til þess

Það er mat geðlæknis að hann sé ófær um að stjórna gjörðum sínum, hann sé stöðugt hættu­legur og full­fær um að skaða barn al­var­lega og jafn­vel drepa það með beitingu kyn­ferðis­of­beldis.

Þá telur geð­læknirinn það nánast öruggt að ef maðurinn fær tæki­færi til að mis­nota barn þá muni hann grípa það og að þess vegna verði að vista hann ó­tíma­bundið í öryggis­gæslu og gæta þess að hann komist aldrei út í sam­fé­lagið.

Manninum er núna að­eins gætt af tveimur karl­mönnum en hann hefur í­trekað á­reitt gæslu­menn sína kyn­ferðis­lega og beitt þau annars konar of­beldi. Fram kemur í dómi að oft þurfi þó fleiri en tvo til að yfir­buga manninn og því bent á nauð­syn þess að jafn­vel auka við mönnum í gæslu hans.

Að lokum er fallist á það í dómi að maðurinn sé mjög hættu­legur um­hverfi sínu, börnum og nauð­syn­legt sé af réttar­öryggis­á­stæðum að herða það úr­ræði sem hann býr við og flytja hann í bú­setu fjarri í­búa­byggð. Slíka bú­setu verði að binda því skil­yrði að á­kærði sæti stöðugri gæslu allan sólar­hringinn, sé ætíð með gæslu­manni utan dyra og komist hvorki í tæri við börn né minni máttar. Ef ekki er hægt að tryggja þessi skil­yrði segir að það verði að vista manninn á lokaðri réttar­geð­deild eða í öðru sam­bæri­legu úr­ræði.