Skarphéðinn Guðmundsson, sem þá var dagskrárstjóri Stöðvar 2, kom að máli við okkur og spurði hvort við myndum vilja gera rómantíska seríu sem gerist úti á landi,“ segir Nína Dögg Filippusdóttir, leikkona aðspurð því hvernig það hafi komið til að hún ásamt Gísla Erni Garðarssyni og Birni Hlyni Haraldssyni hafi gert sjónvarpsseríu um Kvótakerfið.

„Við erum með tengingu vestur og okkur hafði lengi langað að gera eitthvað þar svo við byrjum að fabúlera með hugmyndir og erum komin eitthvað áleiðis með hugmynd um kvenprest sem mætir vestur og eitthvað. Svo förum við að ræða hvernig allt virkar þarna, með fiskinn og útgerðina, og þá áttum við okkur á því að við vitum merkilega lítið, ef eitthvað, um tilurð kvótakerfisins,“ segir Nína.

„Og ef við vitum ekkert um þetta, hvernig verður það þá með næstu kynslóðir? Og verandi Íslendingur þá er það kannski ákveðin skylda okkar að vera upplýst um það sem varðar náttúruauðlindir landsins. Og við nefndum þættina Verbúðin, því verbúðin er fyrirbæri sem kveikir ákveðnar minningar hjá þeim sem hafa aldur til, bæði vondar og góðar, og svo er þessi nostalgía, en svo fjöruðu verbúðirnar út þegar kvótakerfið komst á,“ bætir hún við.

„Við þekkjum það öll sem Íslendingar að þegar talið berst að kvótakerfinu þá bera margir fyrir sig að þeir viti ekkert um það eða eru snöggir að skipa sér í fylkingar. Þess vegna þessi dæmisaga. Þannig að við getum fengið einhvern skilning á því og átt um það samtöl án þess að finna til vanmáttar gagnvart því. Ef okkur tekst að halda þræði gegnum þessar persónur, þá verður þetta vonandi á tungumáli sem við skiljum. Þetta er jú þrátt fyrir allt okkar kerfi. Við bjuggum það til. Við samþykktum það og berum þannig ábyrgð á því. Er þá ekki eðlilegt að við þekkjum það?“ segir Gísli Örn.