Nói Síríus vissi ekki að myndirnar sem notaðar eru á nýjum Opal-um­búðum væru ekki eign lista­mannsins Odds Ey­steins Frið­rik­sonar eða Odee. Mbl.is hefur það eftir fram­kvæmda­stjóra Nóa Síríus, Auð­jóni Guð­munds­syni.

„Nei við viss­um ekki að þetta væru verk eft­ir aðra lista­­menn. Hins vegar ætla ég bara að vísa til hans þegar kem­ur að um­ræðunni um clip art, þetta er ekki mitt sér­­­svið,“ seg­ir Auð­jón.

Sakaður um mynd­stuld

Oddur hannaði um­búðirnar fyrir nýjan Opal sem seldur er til styrkt­ar Ein­­stök­um börn­um og gaf vinnu sína fyrir það. Mikil um­ræða hefur verið um verk Odds eftir að einn lista­mannanna sem hann notaði mynd eftir í verkið sakaði Odd um mynd­stuld. Þá skrifaði lista­maðurinn Sig­mundur Breið­fjörð Þor­geirs­son pistil á Face­book þar sem hann gagn­rýndi verkið og sagði Odd nýta sér verk er­lendra, lítt þekktra lista­manna sjálfum sér til fram­dráttar.

Á pakkn­ing­un­um er sam­­sett mynd þar sem klippt­ar hafa verið sam­an nokkr­ar mynd­ir af fram­andi fíg­úr­um með klippi­mynda­að­ferð. Um er að ræða þekkta að­ferð úr lista­sögunni sem notuð hefur verið af lista­mönnum á borð við Erró, Andy War­hol og Roy Liechten­­stein.

„Þetta er náttúr­­lega bara þekkt list­­form og ég hef oft áður verið að svara fyrir eitt­hvað svona, ég er bara hættur að nenna því,“ segir Oddur í sam­tali við Frétta­blaðið í gær.

Ætla ekki að blanda sér í um­ræðuna

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Oddur Ey­steinn hefur verið sakaður um mynd­stuld en árið 2014 var honum til að mynda fleygt út af síðunni DeviantA­art fyrir að nýta list­­sköpun annarra. Auð­jón segir Nóa Síríus ekki hafa vitað af því en Odd­ur hafi síðan þau mál komu upp, hreinsað þau og kom­ist að sam­komu­lagi við við­kom­andi lista­­menn.

Að sögn Auð­jóns ætlar fyr­ir­­tækið ekki að blanda sér í um­ræðu um „hvað sé list“ enda sé það ekki hans sér­svið. Lista­­menn þurfi að eiga þau sam­töl og leysa málin sín á milli.

Spurður um hvort Nói Síríus ætli að halda eft­ir greiðslu til Odds seg­ir Auð­jón í samtali við Mbl.is: „Odee vann verkið í sjálf­­boða­starfi þar sem hann teng­ist hópn­um sem við erum að styrkja. Hann hef­ur unnið í sín­um verk­um með vöru­merkið Opal og við höf­um notið þess að vinna með hon­um. Okk­ur finnst pakkn­ing­arn­ar fal­­leg­ar og verk­efnið gott og við erum sátt með út­kom­una.“