Nói Síríus vissi ekki að myndirnar sem notaðar eru á nýjum Opal-umbúðum væru ekki eign listamannsins Odds Eysteins Friðriksonar eða Odee. Mbl.is hefur það eftir framkvæmdastjóra Nóa Síríus, Auðjóni Guðmundssyni.
„Nei við vissum ekki að þetta væru verk eftir aðra listamenn. Hins vegar ætla ég bara að vísa til hans þegar kemur að umræðunni um clip art, þetta er ekki mitt sérsvið,“ segir Auðjón.
Sakaður um myndstuld
Oddur hannaði umbúðirnar fyrir nýjan Opal sem seldur er til styrktar Einstökum börnum og gaf vinnu sína fyrir það. Mikil umræða hefur verið um verk Odds eftir að einn listamannanna sem hann notaði mynd eftir í verkið sakaði Odd um myndstuld. Þá skrifaði listamaðurinn Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson pistil á Facebook þar sem hann gagnrýndi verkið og sagði Odd nýta sér verk erlendra, lítt þekktra listamanna sjálfum sér til framdráttar.
Á pakkningunum er samsett mynd þar sem klipptar hafa verið saman nokkrar myndir af framandi fígúrum með klippimyndaaðferð. Um er að ræða þekkta aðferð úr listasögunni sem notuð hefur verið af listamönnum á borð við Erró, Andy Warhol og Roy Liechtenstein.
„Þetta er náttúrlega bara þekkt listform og ég hef oft áður verið að svara fyrir eitthvað svona, ég er bara hættur að nenna því,“ segir Oddur í samtali við Fréttablaðið í gær.

Ætla ekki að blanda sér í umræðuna
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Oddur Eysteinn hefur verið sakaður um myndstuld en árið 2014 var honum til að mynda fleygt út af síðunni DeviantAart fyrir að nýta listsköpun annarra. Auðjón segir Nóa Síríus ekki hafa vitað af því en Oddur hafi síðan þau mál komu upp, hreinsað þau og komist að samkomulagi við viðkomandi listamenn.
Að sögn Auðjóns ætlar fyrirtækið ekki að blanda sér í umræðu um „hvað sé list“ enda sé það ekki hans sérsvið. Listamenn þurfi að eiga þau samtöl og leysa málin sín á milli.
Spurður um hvort Nói Síríus ætli að halda eftir greiðslu til Odds segir Auðjón í samtali við Mbl.is: „Odee vann verkið í sjálfboðastarfi þar sem hann tengist hópnum sem við erum að styrkja. Hann hefur unnið í sínum verkum með vörumerkið Opal og við höfum notið þess að vinna með honum. Okkur finnst pakkningarnar fallegar og verkefnið gott og við erum sátt með útkomuna.“