Fjölskylda Mateusz Tynski hafði ekki vitneskju um að hann væri á leiðinni úr landi. Þetta segir Karol Tynski, bróðir hans. Hann hafði síðast samband við þau þann 28. febrúar síðastliðinn og hvarf hans uppgötvaðist ekki fyrr en í maí.

Ekki er vitað hvort Mateusz ætlaði að heimsækja heimaland sitt eða flytja alfarið til baka. Að sögn Karols átti hann bifreið á Íslandi.

„Hann sagði engum að hann væri á leiðinni,“ segir Karol. „Hann flutti til Íslands fyrir fjórum árum og hefur flogið heim þrisvar sinnum síðan þá. Þetta er mjög óeðlilegt því að hann hefur verið í símasambandi við foreldra mína um það bil einu sinni í viku allan tímann. Lengsti tíminn sem hann hefur ekki verið í sambandi eru tvær vikur.“

Karol segir að Mateusz hafi flutt til Íslands til að hafa betri tekjur. Lengst af hafi hann starfað hjá fiskvinnslu en hann veit ekki hvaða. Hann veit ekki til þess að Mateusz hafi verið í neinum vandræðum hér á Íslandi. Að minnsta kosti átti hann ekki við nein vandamál að stríða áður en hann flutti hingað. „Mateusz er þögull maður,“ segir Karol.

„Við höfum látið lögregluna hérna vita og leit er hafin hér.“ Eins og áður hefur komið fram stendur leit ekki yfir á Íslandi en óskað er eftir öllum upplýsingum sem gætu nýst við leitina ytra.

Fjölskylda Mateusz, í Slesíuhéraði í Póllandi, er ekki stór. Hann er ókvæntur og barnlaus. Karol veit ekki hverja hann umgekkst á Íslandi. Eftir að auglýsingar um hvarf hans voru birtar í samfélagsmiðlahópum Pólverja á Íslandi hefur enginn stigið fram sem segist þekkja hann.