Farið verður í framkvæmdir við heilsuleikskólann Kór í Kórahverfi í Kópavogi í sumar eftir að mygla fannst í austur- og suðurhluta skólans. Þetta kom fram á opnum fundi með foreldrum í gær. Skólinn er rekinn af Skólum ehf. en byggingin er í eigu Kópavogsbæjar.

Samkvæmt tölvupóstum, sem ræddir voru á fundinum, kom fram að stjórnendur Skóla ehf. fengu vitneskju um leka- og rakavandamál í skólanum í janúar. Starfsmaður skólans tók sýni í vor sem send voru á Náttúrufræðistofnun Íslands og kom þá í ljós mygla.

Þeir foreldrar sem tóku til máls á fundinum voru nokkuð reiðir og fullyrtu margir að börn hefðu sýnt mikil einkenni sem rekja mætti til myglunnar.

Fram kom í máli Gunnars Más Karlssonar, deildarstjóra fasteigna bæjarins, að farið yrði í framkvæmdir í sumarlokun leikskólans. Hefði bærinn verið beðinn að bíða með vinnuna til sumarlokunar.

Rifnir verða upp dúkar undir gluggum á austurhliðinni og heilbrigðiseftirlit mun taka skólann út áður en starfsemi hefst í ágúst. Sagði hann að margt hefði mátt gera betur en málið væri ekki sambærilegt því sem kom upp í húsnæði Íslandsbanka við Kirkjusand.

„Auðvitað er hægt að læra af öllum mistökum sem gerð voru en ekkert benti til þess að þetta væri eitthvað hættulegt fyrir starfsmenn eða börn,“ sagði Gunnar.