Sótt hefur verið um pláss fyrir 150 börn á yngsta stigi frístundarinnar í Urriðaholti, en einhver börn fengu ekki pláss. Samkvæmt tilkynningu sem Garðabær gaf frá sér í dag eru öll börn sem voru skráð í frístund fyrir 15. júní síðastliðinn komin með staðfesta dvöl, og þá séu 434 börn með staðfesta vistun í frístundaheimilum í bæjarfélaginu öllu. Þá segir að 85 börn séu á biðlista, en þau hafi öll verið skráð í frístund í ágúst.

Ástæðan er mönnunarvandi, en í pósti sem skólastjóri Urriðaholtsskóla sendi foreldrum eru viðtakendur hvattir til að benda fólki á að sækja um starf í frístundastarfinu.

Héldu að þau væru með pláss

Ingibjörg Heiðdal, móðir barns í hverfinu, segist hafa gert ráð fyrir því að barnið sitt væri með frístundapláss þangað til hún fékk tölvupóst um annað. Pósturinn barst um fimmleytið í gær, nánar tiltekið klukkan 17:04, en þá var minna en sólarhringur í að börnin klári skóladaginn og ættu að fara í frístund.

„Allir í hverfinu bjuggust við því að börnin væru í frístund, það er að segja þeir sem sóttu um,“ segir Ingibjörg, sem gagnrýnir hversu seint þessum upplýsingum sé komið til foreldra. Hún telur ljóst að pósturinn hafi verið sendur síðdegis í gær til þess að enginn þyrfti að svara fyrir ástandið. „Síðan geta þau ekki svarað neinu, hvenær eða hvort við fáum einhvern tíman pláss.“

Ingibjörg Heiðdal.
Mynd/aðsend

Neyðarástandi í vinnunni og í skólanum

Ingibjörg, sem er læknir, starfar á bráðamóttökunni og það hentar henni afskaplega illa að þurfa að sækja barnið sitt þegar það er búið í skólanum klukkan hálf tvö.

„Ég er læknir á bráðamóttökunni og vinn vaktavinnu. Það er gríðarlega erfitt fyrir mig að fara fyrr úr vinnunni til að sækja barnið mitt,“ segir hún og bætir við „Það er líka neyðarástand á bráðamóttökunni,“

Auk þess segir Ingibjörg að ekki sé hægt að ætlast til þess að ömmur og afar komi börnunum til bjargar, en foreldrar hennar búa fyrir norðan. „Þau eru ekkert að fara að passa eftir skóla,“ segir hún.

Fleiri foreldrar og fleiri vandamál

Staðan ætti að hafa verið orðin löngu ljós bæjaryfirvöldum að mati Ingibjargar, en það hafi komið legið fyrir í nokkur ár að ungt fólk með börn væri að sækjast í hverfið í Urriðaholti frekar en eldra barnlaust fólk.

Fréttablaðið hefur rætt við fleiri foreldra í hverfinu sem ekki vildu koma fram undir nafni og gagnrýna ástandið. Þau segja að umrætt frístundamál sé ekki eina hindrunin sem snúi að börnum í hverfinu.

Í áðurnefndum tölvupósti til foreldra var til að mynda tilkynnt að frístundaakstur myndi hefjast í dag fyrir þau börn sem eru með pláss, en í morgun kom síðan fram í öðrum tölvupósti að hann myndi ekki hefjast í dag.

Leiksvæði fyrir börn er mjög takmarkað í Urriðaholti, en fótboltavöllur hefur verið fjarlægður vegna framkvæmda á skólanum. Ingibjörg hefur eftir foreldra eldra barns í hverfinu að þegar börnin séu búin í skólanum hafi þau hreinlega ekkert annað að gera en að fara heim í tölvuna. Annað foreldri segir útiaðstöðuna fyrir börn í hverfinu galna.

Veit ekki hvernig upplýsingagjöf var háttað

Hulda Hauksdóttir, upplýsingastjóri Garðabæjar, vísar til áðurnefndar tilkynningar um upphaf skólaársins í bæjarfélaginu. Aðspurð út í það að foreldrar hafi fengið að vita síðdegis í gær af því að börn þeirra væru ekki á frístund segist hún ekki þekkja til um það hvernig upplýsingagjöf var háttað um málið, en segist ætla að kanna það.

Þá bendir Hulda á að sérstakt leiksvæði fyrir börn í Urriðaholti sé í uppbyggingu, líkt og hverfið sjálft. Hún segir að fyrsti hluti svæðisins ætti að vera orðinn aðgengilegur börnum eftir nokkrar vikur.

Þorgerður Anna Arnardóttir, skólastjóri Urriðaholtsskóla, vildi ekki tjá sig um málið og vísaði á bæjaryfirvöld.

Urriðaholtsskóli.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason