Aðalmeðferð í einu stærsta fíkniefnamáli sinnar sögu, saltdreifaramálinu svokallaða, hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og verður framhaldið í dag.

Málið er talið tengjast gríðarstóru peningaþvættismáli sem er nú til rannsóknar hjá lögreglu.

Fimm karlmenn hafa verið ákærðir í málinu en það eru þeir Guðlaugur Agnar Guðmundsson, Guðjón Sigurðsson, Halldór Margeir Ólafsson, Ólafur Ágúst Hraundal og Geir Elí Bjarnason.

Þeir báru allir vitni fyrir héraðsdómi í gær. Þrír þeirra, Guðlaugur, Guðjón og Halldór eru ákærðir fyrir innflutning á tugum lítra af amfetamínbasa sem faldir voru í saltdreifara sem kom til landsins í byrjun árs 2020. Þeir eru grunaðir um að hafa framleitt allt að 117,5 kíló af amfetamíni í sölu- og dreifingarskyni.

Samkvæmt vef Vísis hefur aðeins Guðjón játað að hafa vitað nokkuð um basann en neitaði þó að hafa staðið að innflutningi hans. Guðlaugur og Halldór neituðu báðir að hafa komið að innflutningi saltdreifarans og meðhöndlun hans eftir að hann kom til landsins.

Kannabisræktun á Hellu

Guðjón, Halldór Margeir, Geir Elí og Ólafur Ágúst eru sömuleiðis ákærðir fyrir að hafa staðið saman að kannabisræktun í útihúsi við heimili Guðjóns á Hellu. Lögreglan lagði hald á rúmlega sex kíló af kannabisplöntum, rúm 16 kíló af marijúana og 131 kannabisplöntur í aðgerð lögreglu í maí síðastliðnum.

Ólafur Ágúst er sakaður um að hafa haft í vörslum sínum sínum talsvert magn af fíkniefnum á þremur stöðum.

Rannsókn á málinu hófst fyrir tveimur árum þegar lögreglan fékk aðgang að samskiptum á ís­lensku í dul­kóðuðu for­riti, sem franska lög­reglan braust inn í. Lögreglan handtók mennina fyrir rúmum fjórum mánuðum og voru þeir allir dæmdir í gæsluvarðhald.

EncroChat forritið

Samkvæmt vef Vísis eru Guðlaugur og Halldór sakaðir um að hafa skipst á skilaboðum í gegnum dulkóðað samskiptaforrit, EncroChat, um innflutning og meðhöndlun saltdreifarans. Þeir segjast hvorugir hafa notað umrætt forrit.

Guðjón játaði fyrir dómi í gær að hafa tekið við saltdreifaranum í mars 2020 en þá hafi Halldór rætt við hann um kaup og geymslu dreifarans sem hafi þá verið kominn til landsins. Guðjón sagðist ekki hafa vitað um fíkniefni í dreifaranum en að hann hafi farið að gruna það þegar á leið og þá hefði verið of seint að hætta við.

Halldór sagðist hins vegar ekkert kannast við meinta aðkomu hans að innflutningi og meðhöndlun dreifarans. Guðlaugur neitaði einnig aðkomu í málinu.

Játa kannabisræktun

Guðjón, Halldór, Geir Elí og Ólafur játuðu allir fjórir að hafa komið að kannabisræktuninni í útihúsi við heimili Guðjóns á Hellu.

Samkvæmt vef Vísis gátu mennirnir ekki sammælst um hve skipulögð ræktunin var eða hver hafi átt hugmyndina af henni.

Halldór, Guðjón, og Ólafur voru þó sammála um að Geir Elí hafi verið fenginn inn á seinni stigum vegna þess hve illa gekk að rækta.

Hluti af risastóru máli

Samkvæmt vef Vísis byggir saksóknari mál sitt að miklu leyti á gögnum úr samskiptaforritinu EncroChat. Gögnin fékk lögreglan líkt og fyrr segir afhent frá Interpol sumarið 2020.

Átta hundruð voru handtekin og rúm tvö tonn af fíkniefnum, tugir vopna og rúmlega níu milljarðar króna í reiðufé var gert upptækt af lögreglu.

Lögreglan hefur til rannsóknar 800 milljóna króna peningaþvættismál sem er talið tengjast þessu fíkniefnamáli. Það er enn til rannsóknar hjá héraðssaksóknara.