Vísir í Grindavík hefur fest kaup á togaranum Bergi VE-44 af vestmannaeysku útgerðinni Bergi, en þetta staðfestir Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis. Bergur er dótturfélag Bergs-Hugins, sem er aftur dótturfélag Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

Síldarvinnslan greindi frá því í gær að salan á togaranum væri liður í hagræðingaraðgerðum vegna skerðingar á aflamarki þorsks á næsta fiskiveiðiári sem hefst í september.

Eftir kaup Vísis verður Bergur endurskírður Jóhanna Gísladóttir. Á sama tíma verður línubát Vísis, sem nú ber nafnið Jóhanna Gísladóttir, lagt og hann líklegast seldur í brotajárn. Jóhanna Gísladóttir hefur um árabil verið meðal aflahæstu línubáta landsins og hefur jafnan gengið undir viðurnefninu Drottningin.

Jóhanna er komin til ára sinna, en báturinn var byggður árið 1969 og hefur gengið í gegnum ýmsar breytingar síðan þá. Meðal annars lengingu, stækkun á brú og yfirbyggingu á lest.Vísir fær nýja skipið afhent í lok ágúst, en það liggur nú í Reykjavíkurhöfn og bíður þess að komast að í slipp svo hægt verði að mála það í grænum lit Vísisskipa.

Bergur er 35 metra langur togari, smíðaður í Danmörku árið 1998. Vísir hefur lengst af fyrst og fremst gert út línubáta og því marka kaupin á Bergi nokkra stefnubreytingu í rekstri fyrirtækisins, að sögn Péturs.Síðastliðið ár hefur Vísir haft skuttogarann Bylgju á leigu og gert út samhliða línubátum.

Hafa farið þessa leið áður með góðum árangri

„Við gerðum þessa tilraun síðastliðið ár með Bylgju og það heppnaðist vel. Viðskiptavinir okkar fá ennþá það sem þeir vilja og fiskurinn sem við komum með að landi er með sömu vottanir, sama hvort um ræðir línufisk eða trollfisk. Línufiskur hefur aðeins annan blæ yfir sér en trollfiskurinn, er aðeins bjartari á lit.

Við notum línufiskinn meira í saltfiskvinnsluna. Trollfiskurinn fer frekar í ferskvinnsluna eða frost,“ segir Pétur.

Frá því að heimsfaraldurinn hófst hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki staðið frammi fyrir ýmsum áskorunum. Til að mynda voru hótel og veitingastaðir á meginlandinu lokuð um langa hríð, en ríflegur hluti íslensks sjávarfangs ratar á slíka staði.

Pétur segir að síðasta rekstrarár Vísis hafi verið þolanlegt. Hlutfall rekstrarhagnaðar fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði af veltu hafi verið um 20 prósent. „Ferskfiskmarkaðurinn er ennþá alltaf að opna og loka, það eru ennþá miklar sveiflur þar. Markaðir með frystan og saltaðan fisk er stöðugri um þessar mundir.

Þetta snýst mest um hvert fiskurinn er að fara, hvort þú ert að selja inn á hótel og veitingastaði eða hvort þú ert í matvöruverslunum sem hafa haldið sér betur. Greinin er þó, eins og venjulega, fljót að bregðast við breyttum aðstæðum. Það höfum við gert með því að laga vinnsluna að eftirspurn,“ segir Pétur Pálsson.