Fréttastofa Bylgjunnar og Vísir.is biðst afsökunar á frétt sem sögð var í hádegisfréttum Bylgjunnar og Vísis um að Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, hefði verið drukkinn á sýningu í Borgarleikhúsinu í síðustu viku.

Fréttablaðið greindi frá því fyrr í dag að sonur Gunnars Braga, Róbert Smári Gunnarsson, hefði skrifað pistil á Facebook-síðu sína þar sem hann segir fréttina „kolranga“.

Umfjöllunin snéri að því að Gunnar Bragi hefði verið drukkinn og óstýrilátur á uppsetningu á leiksýningunni Ellý í Borgarleikhúsinu. Gunnar, sem er einn Klaustursþingmanna, sagði fyrir helgi að hann hefði ekkert áfengi drukkið frá því að hann tók sér leyfi frá þingstörfum eftir Klaustursmálið fræga.

Afsökunarbeiðnin var fyrst lesin upp í fréttatíma Bylgjunnar klukkan fimm. Í samhljóða frétt Vísis, sem ber fyrirsögnina „Mistök gerð með birtingu fréttar“, segir að fréttastofa Vísis hafði gert mistök með því að birta fréttina „áður en náðist í Gunnar Braga sjálfan eða heimildar fengust staðfestar“ og er beðist afsökunar á því. „Fréttaflutningurinn var ekki samkvæmt ritstjórnarreglum fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis og hefur fréttin því verið fjarlægð af vefnum,“ segir að lokum.

Leiðrétting: Í upphaflegri mynd þessarar fréttar stóð að Vísir.is hefði beðist afsökunar. Fréttablaðinu var bent á að afsökunarbeiðnin og upphaflega fréttin voru báðar fyrst lesnar upp á Bylgjunni, og hefur frétt Fréttablaðsins verið leiðrétt samkvæmt því.