Vísindamenn á öllum aldri hyggjast fjölmenna á palla Alþingis þegar þriðja umræða um fjárlög hefst á morgun. Ástæðan er niðurskurðartillaga meirihluta fjárlaganefndar þar sem stefnt er að því að lækka fjárframlög til Rannsóknasjóðs um tæpar 147 milljónir.

Forseti Vísindafélags Íslands segir að niðurskurðurinn muni sérstaklega koma niður á ungum vísindamönnum, til dæmis nýdoktorum, sem eru að stíga sín fyrstu skref og eru hvergi með fasta stöðu. Þeir reiði sig einna mest á styrki úr Rannsóknasjóði. Verði tillagan samþykkt er hætt við að 25 störf vísindamanna hverfi úr samfélaginu.

Sjá einnig: For­viða á hug­myndum um niður­skurð til Rann­sókna­sjóðs

Erna Magnúsdóttir, forseti félagsins, segir í samtali við Fréttablaðið að hún og fleiri hafi búist við því að framlög til sjóðsins stæðu í stað. „Við fáum fyrstu útgáfu fjárlaganna og sjáum að tölurnar áttu að standa í stað,“ segir Erna. Fólk hafi ekki verið hresst með það en slíkt hafi ekki komið á óvart. Ákvörðunin eftir aðra umræðu frumvarpsins, um að lækka framlög til sjóðsins um 17 prósent, hafi hins vegar komið ansi hressilega aftan að vísindamönnum. 

Hún segir víst að þingmenn geri sér ekki grein fyrir áhrifunum sem niðurskurðurinn mun koma til með að hafa. Um sé að ræða tíu verkefnastyrki sem þarna hverfi. Vísindafélagið hefur því boðað til mótmæla á pöllum í þingsal á morgun. 

Eru vísindamenn hvattir til að mæta í gulum vestum en hugmyndin er sprottin frá mótmælendum í Frakklandi, sem gengið hafa hart fram gegn eldsneytishækkunum og ríkisstjórn Macrons forseta. Erna segir að mótmælin á morgun verði þó talsvert friðsælli en þau í Frakklandi.

Viðburður Vísindafélags Íslands: Mótmælum niðurskurði til vísinda