„Sumir strákar hafa áhuga á fótbolta eða handbolta en aðrir að prjóna en áhugahvötin er kveikjan,“ segir Eyrún Halla Skúladóttir, skólastjóri Glerárskóla, en skólinn fékk næst hæsta styrkinn frá Sprotasjóði, 2,9 milljónir.

Sjóðurinn styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik-, grunn- og framhaldsskólum í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá viðkomandi skólastiga.

Verkefni skólans, Strákar, lesum saman! – að efla læsi drengja út frá áhugahvöt þeirra, verður unnið með Naustaskóla, en Eyrún segir að skólarnir á Akureyri vinni vel saman.

Eyrún segir um að ræða framhald þróunarverkefnis frá í vetur sem heitir Læsi fyrir lífið.„Við erum að útvíkka okkur aðeins og vinna út frá áhugahvöt nemenda. Leggja áherslu á að nýta öll þau verkfæri sem upplýsingatæknin getur boðið upp á og stuðla þannig að auknu læsi hjá drengjum, og stúlkum auðvitað líka, en aðalpunkturinn er Strákar lesum saman en auðvitað nýtist þetta fyrir alla krakka.“ segir Eyrún.

Krakkarnir höfðu gagn og gaman af ferðinni í fjöruna.
Mynd/aðsend

Strandlínurannsókn nemenda í Víkurfjöru fékk 1,2 milljónir úr sjóðnum. Elín Einarsdóttir skólastjóri segir að allir nemendur muni taka þátt eins mikið og þeir geta.

Verkefnið gengur út á að rannsaka strandlínu- og fjörubreytingar í Víkurfjöru á næstu árum.Nemendur í 5. til 10. bekk mæla upp sex snið í fjörunni, mæla kornastærðir á sandinum og taka myndir af formgerðunum í fjörunni.Nemendur í 1. til 4. bekk munu síðan stunda sjálfstæðar rannsóknir á sandinum í Víkurfjöru, dýralífinu sem þar er að finna og rannsaka rusl sem skolast þar á land.

„Ströndin hér er sérstök og skemmtileg og hún hefur lítið verið mæld,“ segir Elín.Markmiðin með rannsóknarverkefninu eru að nemendur kynnist því hvernig sé staðið að vísindalegum rannsóknum og fái að taka þátt í þeim, svo sem mælingum, söfnun upplýsinga og úrvinnslu gagna, en slík reynsla mun vonandi nýtast þeim vel í framtíðinni.

Jóhannes Marteinn Jóhannesson, jarðfræðingur hjá Kötlu jarðvangi, stýrir verkefninu í samstarfi við Kolbrúnu Hjörleifsdóttur verkefnastjóra Geo-skóla Víkurskóla.Fyrir utan nemendurna munu flestallir starfsmenn skólans koma að verkefninu með einum eða öðrum hætti.