Fáar vís­bendingar hafa borist vegna leitar lög­reglunnar að Al­mari Yngva Garðars­syni en hans hefur verið saknað frá því í gær, sunnu­dag. Fjöl­margir hafa tekið þátt í leit að Al­mari Yngva í dag frá bæði lög­reglunni og frá björgunar­sveit

Lög­reglan lýsti eftir Al­mari Yngva í gær en hann er 29 ára gamall, 190 sentí­metrar á hæð, grannur, dökk­hærður og með skegg­rót.

Skúli Jóns­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn hjá lög­reglunni í Hafnar­firði, segir að leit verði haldið á­fram í kvöld en að að­stæður séu ekki góðar.

„Þetta er erfiðar að­stæður, þung­skýjað og það hjálpar ekki þegar það er farið slóða. Það er erfitt að sjá langt út fyrir. Nú er komið myrkur en við verðum á ferðinni og höldum á­fram,“ segir Skúli.

Hann segir að það sé búið að leita víðs vegar á suð­vestur­horninu í sam­starfi við björgunar­sveitir.

„Þetta er tekið skipu­lega, hvert svæði fyrir sig.“

Lög­reglan lýsti eftir Al­mari Yngva seinni partinn í gær en það hefur ekki skilað miklu að sögn Skúla.

„Vís­bendingarnar eru ekki margar til að vinna með og þess vegna er svæðið svona stórt,“ segir hann og bætir við: „Þetta reynir á, fyrir að­stand­endur og alla.“

Davíð Már Bjarna­son, upp­lýsinga­full­trúi Lands­bjargar, segir að um 200 manns hafi tekið þátt í leitinni í dag og það hafi bæst í eftir að hefð­bundnum vinnu­tíma lauk seinni­partinn. Hann á von á því að leit verði haldið á­fram eitt­hvað í kvöld en það átti eftir að funda um fram­haldið.

„Það var stórt svæði undir á suð­vestur­horni landsins og það þurfti mikinn mann­skap til að leita á svo stóru svæði,“ segir Davíð.