Vísbendingar eru um að Covid-19 faraldurinn sé kominn í veldisvöxt hér á landi. Tuttugu ný tilfelli greindust innanlands síðastliðinn sólarhring og hafa ekki verið fleiri í rúmar tvær vikur. Meirihluti greindra var utan við sóttkví.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segist hafa verulegar áhyggjur af stöðunni.

„Þetta er dapurt miðað við að við séum með töluverðar hömlur í gangi og þetta sé samt að gerast. Fólk verður að taka þátt í þessu svo þetta virki.“

„Við erum hreinlega að sjá vísbendingar um að við séum komin í veldisvöxt sem er alls ekki það sem við vildum og sérstaklega ekki núna þegar við vorum farin að leggja drög að því að fara í einhverjar afléttingar.“

Lagði fram tillögur um vægar tilslakanir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sent heilbrigðisráðherra tillögur um breytingar á sóttvarnaaðgerðum. Þórólfur gaf út í gær að hann hygðist endurskoða tillögurnar ef grunsemdir um þróun faraldursins reyndust á rökum reistar.

Rögnvaldur segir að hluta af þeim tilfellum sem hafi greinst síðustu daga megi rekja til hópamyndunnar um síðustu helgi.

„Það sem við erum að sjá núna eru bara afleiðingar helgarinnar þar sem fólk var að hittast. Það er í sjálfum sér eitthvað sem við áttum von á að gæti gerst í aðdragandanum að aðventunni, en ég held að fólk verði bara að sætta sig við það eins og með allt annað á þessu ári að jólin og þessi aðventa þarf bara að vera öðruvísi en við erum vön.“

Aðventan verði með breyttu sniði

Rögnvaldur segir að faraldurinn kalli á að fólk setji hefðirnar til hliðar, breyti þeim eða færi yfir í fjarfund.

„Við verðum að halda þetta út, bóluefnið er ekki komið og við erum ekki búin að ná þessu niður. Það er veira út í samfélaginu og við erum líka með tilfelli þar sem við getum ekki rakið alveg upprunann. Það segir okkur að það er fólk þarna úti sem er að labba um, er kannski veikt en einkennalaust og er að dreifa. Við getum ekki slakað á strax, það er bara of snemmt.“

Þá segist Rögnvaldur hafa áhyggjur af hópamyndun inn í verslunarmiðstöðvum og fyrir utan verslanir vegna tilboða sem eru nú víða í gildi í tengslum við svokallaðan svartan föstudag.

Hann segist hafa heyrt af því í kringum sig sé að hætta við að hittast um næstu helgi í ljósi þróunarinnar.

„Ég vona bara að það séu einhver margfeldisáhrif þarna úti vegna þess, að það séu fleiri að hætta við hittinga og hætta við veislur og fjölskylduboð og bara geyma það aðeins.“

Fólk þurfi að hafa úthald

„Maður veit það að allir eru orðnir langþreyttir á þessu, vilja halda í hefðirnar, vilja hittast en við verðum að hafa úthald, við verðum að reyna þetta lengur. Bóluefnið er ekki komið og við eigum enn langt í land.“

Rögnvaldur bætir við að ef fólk vilji hafa jólin sjálf með svipuðu fyrirkomulagi og það er vant þá þurfi það að standa sig vel og halda virkilega vel á spöðunum á næstunni.

Hann hefur áhyggjur af því að fólk hafi byrjað að slaka of mikið á að undanförnu í kjölfar þess að nýjum tilfellum hafi fækkað síðustu vikur.

„Við erum allavega að sjá það í þessum tilfellum í þessari viku að þau virðast svolítið tengjast hópamyndun um síðustu helgi. Þetta er mjög fljótt að gerast, ef það eru fleiri komnir í þennan gír að ætla að hittast og við fáum fleiri svona helgar þá erum við bara komin í hreinan veldisvöxt.“

Nýtt litakóðakerfi almannavarna var rætt á ríkisstjórnarfundi í dag og á Rögnvaldur von á því að það verði kynnt almenningi eftir helgi.

Kerfið verður sett upp í anda veðurviðvörunarkerfis Veðurstofu Íslands og taka mið af þróun faraldursins og horfum.

Fréttin hefur verið uppfærð.