„Það vekur furðu mína að heilbrigðisráðherra velji að stunda pólitíska fimleika í stað þess að taka á bráðavanda hjúkrunarheimilanna í landinu, að ráðherra velji að beita ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í pólitískum leik er svolítið undarlegt,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis.

Henni barst bréf frá heilbrigðisráðuneytinu þar sem segir að ráðuneytið geri „...alvarlegar athugasemdir við málflutning formanns velferðarnefndar í sjónvarpsfréttum RÚV kl. 22.00 í gær." Innihald bréfsins var einnig birt á vef stjórnarráðsins. Í fréttinni sem vísað er til ræddi Helga Vala um hve erfiðlega gangi að ná samningum við Sjúkratryggingar og að nefndinni hefði borst til eyrna að fé sé ekki rétt varið hjá einhverjum hjúkrunarheimilum um landið.

Undir bréf heilbrigðisráðuneytisins, fyrir hönd Svandísar Svavarsdóttur ráðherra, skrifa skrifstofustjóri í ráðuneytinu og ráðuneytisstjórinn.

„Eftirlitshlutverk þingsins er mikilvægt og það á erindi við almenning ef fjármunum er ráðstafað á annan hátt en fyrirskipað er með lögum.“

Helga Vala vísar því algerlega á bug að hafa brotið trúnaðarákvæði þingskaparlaga.

„Samkvæmt þingsköpum má ekki vitna beint í orð gesta hjá fastanefndum þings en alvanalegt er að umræða skapist í samfélaginu um það sem fram kemur á fundum nefnda,“ segir hún.

Fram kom í umræddri frétt Rúv að á fundi velferðarnefndar hefði verið nefnt að einhver sveitarfélög noti fé sem ætlað er í rekstur hjúkrunarheimila í önnur verkefni. Um það segir Helga Vala: „Eftirlitshlutverk þingsins er mikilvægt og það á erindi við almenning ef fjármunum er ráðstafað á annan hátt en fyrirskipað er með lögum. Eins þurfa sveitarfélög að bregðast við ef umræðan á ekki við rök að styðjast.“