Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, vísar fullyrðingum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar úr kvöldfréttatíma RÚV á bug í færslu á Facebook síðu sinni. Hann segir að Sigmundur hefði vel getað gert eitthvað til að bregðast við áhyggjum sínum um þriðja orkupakkann þegar hann var forsætisráðherra.

Orkupakkinn ekki hættulegur þjóð

Í kvöldfréttatíma RÚV var rætt við Hilmar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmann með sérmenntun í orkurétti. Sagði hann að engin gild rök væru fyrir því að innleiða ekki þriðja orkupakkann. „Þótt umræðan sé gagnleg fjallar þriðji orkupakkinn einfaldlega ekki um atriði eins og yfirráð yfir auðlindum og lagningu sæstrengs. Hann snýst um að laga ákveðnar reglur að gefinni reynslu og auka sjálfstæði Orkustofnunar,“ sagði Hilmar. „Þriðju orkupakkinn er ekki hættulegur þjóð og ég held að þetta hljóti bara að vera stjórnmál.“

Eins var fjallað um fund utanríkismálanefndar í gær. Það vakti athygli að hvorki Sigmundur Davíð, né flokksbróðir hans og varamaður í utanríkismálanefnd Gunnar Bragi Sveinsson, sóttu fundinn, en á honum var rætt við Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA dómstólsins. Carl ætti að vera mörgum Íslendingum kunnur, en hann dæmdi á sínum tíma Íslandi í vil í Icesave-málinu. Á fundinum hafði Carl orð á því að engar þær áhyggjur sem íslenskir andstæðingar orkupakkans hafa haldið á lofti ættu við rök að styðjast, og að höfnun á orkupakkanum gæti stefnt veru Íslands í EES í tvísýnu.

Sigmundur, sem er formaður Miðflokksins, var loks gestur í kvöldfréttatímanum þar sem hann ræddi fjarveru sínu á fundi utanríkismálanefndar, og tíð sína sem forsætisráðherra. Var Sigmundur spurður af því af hverju hvorki hann né Gunnar Bragi hefðu gert neinar athugasemdir við þriðja orkupakkann þegar þeir sátu saman í ríkisstjórn, sem forsætisráðherra annars vegar og utanríkisráðherra hins vegar. „Það voru gerðar athugasemdir þá. Íslensk stjórnvöld hafa margoft gert athugasemdir. Ég gerð ekki sjálfur athugasemdir við þetta mál frekar en mörg hundrað önnur EES mál, enda kom þetta ekki inn í EES-nefndina fyrir en 2017,“ sagði Sigmundur í kvöldfréttum RÚV. „Þá var tímabært að kveða upp úr um það hvort að við gætum fallist á þetta eða ekki,“ bætir hann við, en Sigmundur sagði af sér sem forsætisráðherra árið 2016.

Strax ljóst að orkupakkinn ætti erindi við Ísland

Sem fyrr segir hafnar Kolbeinn Óttarsson Proppé söguskýringu Sigmundar alfarið í færslu á Facebook. „Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór mikinn í Kastljósinu áðan. Eins og oft áður ber hann enga ábyrgð á neinu og aðrir misskilja eða átta sig ekki á.

Hann sagðist ekki hafa gert neinar athugasemdir við þriðja orkupakkann þegar hann var forsætisráðherra, enda hundruð EES-mála í gangi og því ekki hægt að ætlast til þess að hann hefði verið inni í þeim öllum. Vissulega rétt, en maður hefði kannski haldið að hann setti sig inn í mál sem hann telur jafn alvarlegt og þetta,“ skrifar Kolbeinn.

Hann heldur áfram og skrifar að þriðji orkupakkinn var samþykktur af ESB árið 2009, en þá hafi strax orðið ljóst að á einhverjum tímapunkti þyrftu íslensk stjórnvöld að taka afstöðu til þess hvort að orkupakkinn ættu erindi í íslenskan rétt. „Þeir íslensku þingmenn sem sinntu Evrópustarfi á þessum árum hefðu því vel getað aflað sér nokkurra upplýsinga um þessi mál. Sigmundur Davíð sat í Íslandsdeild EFTA 2009-2011 og Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA og EES 2011-2013,“ skrifar Kolbeinn.

Rekur hann það jafnframt í skrifum sínum að síðla árs 2014 samþykkti EFTA-ráðið ályktun þess efnis að mikilvægt væri að flýta innleiðingu orkupakkans í EES. „Fulltrúar Íslands sátu þann fund og því ekki óeðlilegt að álykta að þriðji orkupakkinn nyti stuðnings íslenskra stjórnvalda. Sigmundur Davíð var forsætisráðherra þá og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra,“ ritar Kolbeinn áfram. „Í kjölfarið tók við umfangsmikil vinna, þar sem Íslendingar fengu undanþágu frá hinu og þessu, eins og gengur og gerist með Evróputilskipanir. Viðræðurnar tóku mörg ár. Ísland tók fullan þátt í þeim,“ bætir hann við.

„Einfaldlega ekki góður forsætisráðherra“

Kolbeinn segir að ef Sigmundur hafi ekki vitað af Orkupakkanum í tíð sinni sem forsætisráðherra hafi hann einfaldlega ekki sinnt embætti sínu vel. „Hafi Sigmundur Davíð sem forsætisráðherra ekki vitað af þeim og því ekki haft fyrir því að koma sínum athugasemdum og áherslum inn í viðræðurnar um þann mikla háska sem íslenskri þjóð stafaði af þriðja orkupakkanum, tja þá var hann ekki góður forsætisráðherra.

Ef Sigmundur Davíð vissi ekki af viðræðunum og því hvaða áhrif þær og þriðji orkupakkinn myndu hafa á mögulegan sæstreng þegar hann stofnaði starfshóp með David Cameron (UK – Iceland Energy Task Force) árið 2015 til að kanna kosti slíks sæstrengs, tja þá var hann ekki góður forsætisráðherra,“ skrifar Kolbeinn.