Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, vísar á bug sögusögnum um að stjórnendur Landspítalans hafi verið bólusettir gegn COVID-19, þvert á tilmæli um forgangsröðun sóttvarnarlæknis. Þetta kemur fram í pistli Páls á vef Landspítalans.
„Ég vil sérstaklega taka fram, vegna sögusagna um annað, að forstjóri og framkvæmdastjórn eða aðrir stjórnendur spítalans hafa ekki verið bólusettir fyrir COVID-19,“ skrifar Páll.
„Undantekningar frá þessu eru auðvitað þær ef fólk sinnir einnig beinum sjúklingasamskiptum í framlínu og tilheyrir þannig þegar skilgreindum forgangshópum. Við hin bíðum róleg þar til að okkur kemur, í þeirri vissu að framar okkur í röðinni er sannarlega fólk sem þarf meira á bólusetningu að halda,“ segir hann.
Fengið fjölda óska um bólusetningu
Páll bendir á að farsóttarnefnd spítalans hafi á undanförnum vikum fengið fjölda rökstruddra óska um að ákveðnir hópar innan spítalans þurfi að ganga fyrir öðrum í bólusetningu.
„Þótt ég skilji vel að fólk óttist það að sýkjast þá verðum við öll að virða forgangsröðun sem sett hefur verið fram. Eftir því sem bóluefni berst til landsins þá verða landsmenn bólusettir og þar er fylgt þeirri forgangsröðun sem liggur fyrir,“ segir Páll.