„Í fyrsta lagi var þessu nú aldrei lofað að neinu leyti og málið er náttúrulega bara í eðlilegri vinnslu og kemur í borgarráð um leið og það er tilbúið,“ segir Þódís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar, í samtali við Fréttablaðið. Þórdís svarar þannig ásökunum Vigdísar Hauksdóttur sem birtust í viðtali við hana á vef Fréttablaðsins í dag.

Deilan snýr að áliti endurskoðunarnefndar sem Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, fór fram á. Þórdís segir engan hafa aðgang að þessu áliti nema sig, formann borgarráðs, og Eyþór sem fór fram á það. Enginn annar borgarfulltrúi hafi séð álitið og því sé fjarstæða að halda því fram að meirihlutinn sé að leyna því sérstaklega fyrir Vigdísi til að koma ársreikningnum í gegn.

„Þetta er bara álitsgerð sem endurskoðunarnefnd sendir borginni og þar leggja þau til að borgin fái umsögn frá ákveðnum aðilum. Ég sem formaður borgarráðs set það þá í vinnslu og það er enn hjá þeim aðilum og kemur inn í borgarráð þegar það er tilbúið,“ segir Þórdís. „Hún er bara enn og aftur að búa til storm í vatnsglasi.“

„Á mannamáli þá eru þarna fræðimenn að stúdera ákveðna aðferðafræði. Og fræðimenn, hvort sem það eru lögfræðingar, viðskiptafræðingar eða endurskoðendur eru ekki alltaf sammála hver öðrum og það verður bara að gefa öllum rými til að koma sínum skoðunum að,“ heldur Þórdís áfram og ítrekar að málið sé meðhöndlað á fullkomlega eðlilegan hátt. „Það er nú bara allt samkvæmt áætlun eins og Hatari myndi segja,“ segir Þórdís og slær á létta strengi.