Karl Frímannsson, fræðslustjóri á Akureyri og fyrrverandi sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar, segir skólayfirvöld á Akureyri ekki halda neinu leyndu varðandi myglu.

„Við teljum okkar vera að upplýsa eins og við eigum að gera því það eru engin leyndarmál í þessu.“

Örveruvöxtur hefur greinst í þremur skólum á Akureyri síðustu misseri að því er fram kemur á vef Vikudags og segir Karl að fólk hafi verið upplýst. Mygla fannst í Brekkuskóla, Oddeyrarskóla og Lundarskóla og er búið að fara í framkvæmdir í Brekkuskóla og Oddeyrarskóla.

Foreldrar og skólafólk hafa sagt skólayfirvöld reyna að þagga umræðuna niður. Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari og trúnaðarmaður í Síðuskóla á Akureyri, birti grein nú á dögunum þar sem hún benti á að myglumálið væri ekki á vitorði allra því forsvarsmenn virtust vilja halda því leyndu. „Fyrir hvern er ekki vitað,“ skrifaði hún.

Segjast halda foreldrum upplýstum

Karl segir í samtali við Vikudag að mælingar hefðu verið gerðar í skólunum þremur og væru niðurstöðurnar kynntar á starfsmannafundum og upplýsingar birtar á heimasíðum. Foreldrar fengu allar fréttir um gangi mála.

„Við teljum okkar vera að upplýsa eins og við eigum að gera því það eru engin leyndarmál í þessu. Heilbrigði er allra hagur og því má ekki gefa afslátt af því,“ sagði Karl og segir ástæðuna fyrir því að dregist hefur að halda upplýsingafunda vegna Lundarskóla vera vegna ástandsins í samfélaginu, þá væntanlega vegna kórónaveirufaraldursins.

Ekki kemur fram hvort upplýsingar hafi verið birtar á netinu í staðinn eða fjarfundur haldinn um mygluna. Kynningarfundur er áætlaður á mánudaginn 25. maí næstkomandi.