Stjórn Samfylkingarinnar segir ásakanir fjögurra meðlima #daddytoo hópsins svokallaða, um Heiðu Björgu Hilmisdóttur, varaformann flokksins og borgarfulltrúa, úr lausu lofti gripnar.

Sjá einnig: Saka Heiðu Björgu um ærumeiðingar

Fréttablaðið greindi frá því í gær að Huginn Þór Grétarsson, Hugi R. Ingibjartsson, Stefán Páll Pálusson og Friðgeir Örn Gunnarsson, meðlimir #daddytoo hópsins hefðu krafið Heiðu Björgu um opinbera afsökunarbeiðni, en þeir segja hana hafa sakað þá um að vera ofbeldismenn í útvarpsþættinum Harmageddon í marsmánuði síðastliðnum.

Ásakanirnar úr lausu lofti gripnar

Stjórn Samfylkingarinnar hefur að tilefninu sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún hafnar ásökunum í garð Heiðu Bjargar og segir þær úr lausu lofti gripnar.

„Í bréfinu eru meint ummæli Heiðu Bjargar ekki tilgreind með nákvæmum hætti og því óljóst hvað hún á að hafa gerst sek um. Hins vegar hafa einstaklingar er segjast koma fram fyrir hönd daddytoo hópsins ítrekað á undanförnum tveimur mánuðum sakað Heiðu Björgu opinberlega um að hafa sagt nafngreinda einstaklinga innan hópsins hafa beitt barnsmæður sínar ofbeldi. Allar þær ásakanir eru úr lausu lofti gripnar,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir enn fremur að Heiða Björg hafi farið fram fyrir sífellt stækkandi hóps sem berst fyrir kvenfrelsi og gegn ofbeldi.

Hagsmunir barns ávallt leiðarljós stjórnvalda

„Hún hefur sett ofbeldismál í Reykjavík í öndvegi, hvoru tveggja með því að hafa tekið virkan þátt í stofnun ofbeldisvarnarráðs og Bjarkarhlíðar, miðstöðvar þolenda ofbeldis í samstarfi við ríkið, lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og grasrótarsamtök er barist hafa gegn ofbeldi,“ segir í yfirlýsingunni en Heiða var ein af upphafskonun metoo-byltingarinnar hér á landi. 

Í lok yfirlýsingarinnar tiltekur Samfylkingin það að hún sé flokkur kvenfrelsis og jafnréttis og taki afstöðu með þolendum ofbeldis. 

„Samfylkingin berst fyrir því að réttindi barna séu ávallt í fyrirrúmi. Hagsmunir barnsins skulu ávallt vera leiðarljós stjórnvalda þegar málefni barna eru til umfjöllunar og þar telur Samfylkingin að verk sé að vinna.“

Undir yfirlýsinguna skrifa Logi Einarsson, formaður, Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar, Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, ritari, Hákon Óli Guðmundsson, gjaldkeri og Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður.