Banda­ríski skylminga­maðurinn Alen Hadzic fær ekki lengur að gista á sama hóteli og aðrir kepp­endur frá Banda­ríkjunum eftir að þrjár konur stigu fram og sökuðu hann um kyn­ferðis­lega á­reitni. Hadzic, sem er 29 ára, mun gista á öðru hóteli sem er ekki í Ólympíu­þorpinu, sam­kvæmt The Sun.

Þrjár konur stigu fram ný­verið og sökuðu Hadzic um kyn­ferðis­lega á­reitni sem átti sér stað á árunum 2013, 2015 og 2017. Fyrsta at­vikið átti að hafa átt sér stað meðan Hadzic var með­limur í skylminga­liði Columbia há­skólans í Banda­ríkjunum. Hann var sendur í 12 mánaða leyfi frá skólanum eftir at­vikið.

Segir sögurnar ósannar

Þá er Hadzic gefið að sök hafa káfað á konu á há­skóla­svæðinu árið 2015 og reynt að ýta henni inn í bíl sinn gegn hennar vilja.

Hadzic neitar sök í við­tali við USA Today og segir sögurnar ó­sannar. Banda­ríska Ólympíu­nefndin fór yfir mál Hadzic fyrir Ólympíu­leikana og fékk hann leyfi til að keppa með þeim skil­yrðum að hann myndi ekki ræða við konurnar sem hafa sakað hann á­reitni.

Honum var einnig gert að fljúga einn til Tókýó tveimur dögum eftir að liðs­fé­lagar hans flugu til Japans.