Búið er að vísa hinum 26 ára gamla Amin Ghaysza­deh, sem var í hungurverkfalli, úr landi. Það staðfestir lögmaður Amin, Magnús D. Norðdahl, í samtali við Fréttablaðið.

Hvorki Magnús né nokkur annar var látinn vita af brott­vísun Amin áður en hún fór fram.

„Ég get stað­fest að um­bjóðanda okkar, Amin Ghaysza­deh, var vísað úr landi í morgun til Grikk­lands. Hvorki var haft sam­band við mig né að­stand­endur hans. Amin hefur átt við ýmis heilsu­fars­leg vanda­mál að stríða í mörg ár og var á 18. degi hungur­verk­falls til að mót­mæla yfir­vofandi brott­vísun til Grikk­lands,“ segir Magnús í yfir­lýsingu sem hann sendi á Frétta­blaðið í til­efni af brott­vísun Amins.

Í yfirlýsingunni segir enn fremur að sam­kvæmt þeim verk­lags­reglum um fylgd úr landi eftir synjunsem birtar eru á vef­síðu Út­lendinga­stofnunar skuli leitast við að til­kynna við­komandi um ná­kvæma dag­setningu brott­farar eins fljótt og unnt er, helst að lág­marki með tveggja daga fyrir­vara eða strax og dag­setning brott­farar liggur fyrir.

„Þannig virðist því miður vera til staðar til­tekið mis­ræmi við máls­með­ferð stoð­deildar við undir­búning og fram­kvæmd lög­reglu­fylgdar úr landinu. Æski­legt væri að allir fengju lág­marks­fyrir­vara, sér­stak­lega þegar um er að ræða ein­stak­linga í við­kvæmri stöðu,“ segir Magnús, að lokum í yfir­lýsingu sinni.

Fékk engan fyrirvara

Amin hafði verið í hungurverkfalli frá því þann 23. ágúst, til að mótmæla yfirvofandi brottvísun sinni til Grikklands. Hann óttaðist um bæði heilsu sína og líf yrði hann sendur þangað aftur. Hann sagði í viðali við Fréttablaðið fyrir tæpri viku síðan að hann vildi frekar deyja á Íslandi, en í Grikklandi.

Elínborg Harpa Önundardóttir, hjá samtökunum No borders, segir í samtali við Fréttablaðið að hún hafi fengið það staðfest hjá öðrum sem búa í húsnæði Útlendingastofnunar á Grensás, þar sem Amin var, að hann hafi verið tekinn af stoðdeild ríkislögreglustjóra í gærkvöldi og hafi því gist nóttina í varðhaldi.

„Hann hefur ekki fengið neinn fyrirvara á þetta, því annar hefði hann látið okkur vita,“ segir Elínborg í samtali við Fréttablaðið.

Hungurverkföll hafa ekki áhrif á meðferð umsókna

Samkvæmt upplýsingum frá Þórhildi Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúa Útlendingastofnunnar, hafa hungurverkföll ekki áhrif á meðferð umsókna um vernd og er málsmeðferð haldið áfram, eins og í öðrum málum.

Í svari Þórhildar við fyrirspurn fréttastofu um læknisaðstoð sem Amin var veitt af hálfu Útlendingastofnunnar á meðan hann var í hungurverkfalli kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd njóti heilbrigðisþjónustu starfsfólks í almenna heilbrigðiskerfinu hér á landi eins og aðrir. Það séu ekki sérstakir læknar sem sinni þeim sem starfi á vegum stofnunarinnar.

Í svari Þórhildar kemur einnig fram að mat á stöðu einstaklings, meðal annars með tilliti til heilbrigðisaðstæðna, er alltaf liður í undirbúningi fylgdar úr landi.

„Samkvæmt verklagi Útlendingastofnunar um hungurverkföll er reglulega litið eftir einstaklingum í hungurverkfalli, bæði af öryggisverði sem hefur sólarhringsvakt í búsetuúrræði stofnunarinnar og starfsfólki þjónustuteymis stofnunarinnar, sem býður viðkomandi ávallt þjónustu heilbrigðisstarfsfólks, sálfræðings, geðlæknis, áfallateymis Rauða kross Íslands eða samtal við RKÍ.“