Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær ríkið og Lindarhvol af kröfum Frigusar II um bætur vegna sölu Lindarhvols á Klakka ehf.

Sigurður Valtýsson, forsvarsmaður Frigusar II, segir dóminn vera mikil vonbrigði. „Þau gögn og vitnisburðir sem komu fram við aðalmeðferð málsins sýndu alvarlegar brotalamir í tengslum við söluna á eignarhlut ríkisins hjá Lindarhvoli. Jafnræði var ekkert, gagnsæið hverfandi og leyndarhyggja ríkjandi, þvert á lög og siðareglur félagsins.

Það eru mikil vonbrigði að dómarar málsins litu fram hjá þessum stóru ágöllum. Við munum fara yfir dóminn og taka ákvörðun í framhaldinu um áfrýjun til Landsréttar.“

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, situr enn á greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda um málefni Lindarhvols, og kom hún því ekki til skoðunar fyrir dómi. Sigurður Valtýsson segir það óþolandi og ólíðandi að gögn sem eigi að vera opinber skuli vera falin í þessu dómsmáli, ríkinu til hagsbóta.

Athygli vekur að fjölskipaður dómurinn vísar til ósamþykktrar skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2020 um að ekkert hafi verið út á starfsemi Lindarhvols að setja, en stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur ekki séð sér fært að afgreiða skýrsluna án þess að fá greinargerð Sigurðar Þórðarsonar til hliðsjónar.

Þrátt fyrir að dómurinn hafni dómskröfum stefnenda var málskostnaður milli aðila felldur niður, sem þykir gefa til kynna að dómnum þyki stefnendur hafa haft eitthvað til síns máls.