Í morgun var albanskri fjölskyldu, þar á meðal tveggja ára gömlu barni og konu sem gengin var átta mánuði, vísað frá landi. Læknir á kvennadeild Landspítalans hafði gefið konunni vottorð þar sem kom fram að konan ætti ekki að fljúga auk þess sem ljósmæður höfðu mælt gegn því að konunni yrði vísað frá landi. Fjölskyldan var samt sem áður flutt í lögreglubíl á flugvöllinn um klukkan fimm í morgun.
Frá þessu er greint á Facebook-síðu samtakanna No Borders. Þau greindu fyrst frá stöðunni í gærkvöld og fylgdust svo með málinu í alla nótt, þar til fjölskyldan var fjarlægð. Í tilkynningu þeirra kemur fram að um klukkan 18 í gærkvöldi hafi lögreglan komið í lokað úrræði Útlendingastofnunar og ætlað að handtaka fjölskylduna sem enn bíður svars frá kærunefnd Útlendingamála hvað varðar umsókn þeirra um dvöl á Íslandi.
Fékk blóðnasir vegna streitu
„Þegar lögreglan birtist óvænt og án fyrirvara til að handtaka og brottvísa þeim í fyrramálið varð konan fyrir miklu stressi og byrjaði að blæða mikið úr nefi,“ segir í tilkynningu No Borders.
Fjölskyldan var þá um leyfi til að fara á spítala sem lögreglan heimilaði þeim með þeim skilyrðum að þau yrðu sótt á spítalann klukkan fimm í nótt fyrir brottvísunarflugið. Myndin hér að ofan er tekin af samtökunum No Borders á kvennadeild þar sem ljósmóðir metur ástand konunnar.
„Þar sem við sátum og hlustuðum á hraðan hjartslátt bumbubúans blikkuðu blá ljós inn um gluggann. Lögreglan beið beint fyrir utan með ljósin á og fór ekki fyrr en um 23:00 leytið,“ segir í tilkynningunni.
„Þar sem við sátum og hlustuðum á hraðan hjartslátt bumbubúans blikkuðu blá ljós inn um gluggann. Lögreglan beið beint fyrir utan með ljósin á og fór ekki fyrr en um 23:00 leytið“
Í uppfærslu við tilkynningu No Borders klukkan 01:30 í nótt kemur fram að konan hafi fengið vottorð með upplýsingum um hversu langt hún er gengin og að ekki væri mælt með því að hún fljúgi. Þegar konur eru komnar svo langt á meðgöngu þurfa þær yfirleitt sérstakt vottorð um að þær geti flogið [e. fit to fly]. Engin fordæmi séu þó fyrir því að gefa vottorð um hið gagnstæða því „enginn læknanna hafði upplifað það áður að verið væri að neyða ólétta konu í flug gegn vilja hennar.“
Vottorð ekki nóg til að stöðva brottvísun
Þó að vonir hafi staðið til þess að vottorðið myndi hafa eitthvað að segja fyrir brottvísun virðist það ekki hafa verið nóg. Lögreglan sagði það ekki nóg til að stöðva brottvísun fólksins og sögðust vera með vottorð frá trúnaðarlækni Útlendingastofnunar um að konan gæti flogið.
Í tilkynningu No Borders kemur þó fram að konan muni ekki eftir því að hafa hitt lækni á vegum Útlendingastofnunar, eingöngu að hún fór í blóðtöku hjá göngudeild hælisleitenda fyrir tíu dögum síðan. Engar frekari skoðanir hafi farið fram, utan þeirrar sem fór fram á kvennadeild Landspítalans í nótt og var framkvæmd af ljósmæðrum sem mæltu eindregið gegn brottvísun konunnar.
Klukkan fimm var fjölskyldan færð inn í bíl lögreglunnar til að vera fylgt upp á flugvöll.
Tilkynningu No Borders má sjá hér að neðan.
Í myndskeiðinu hér að neðan má sjá lögregluna fylgja fjölskyldunni upp í bíl.