Einkaaðili gæti frekar en borgin þjónustað húsbíla, segir embætti skipulagsfulltrúans í Reykjavík, sem ekki vill verða við beiðni Íþrótta- og tómstundasviðs um að benda á mögulega staðsetningu fyrir langtímastæði fyrir húsbíla.

Reynslan er sögð sýna að langtímastæði fyrir húsbíla fari ekki alltaf vel með rekstri tjaldstæðis fyrir innlenda og erlenda ferðamenn í Laugardal þar sem aðstaða hefur verið fyrir húsbílaeigendur.

„Ekki er ljóst hvaða kröfur ÍTR eða langtímagestir á svæðinu setja um nýjar staðsetningar eða innviði fyrir sína húsbíla né hvernig rekstri og umsjón yrði háttað. Ekki eru því listaðar upp mögulegar staðsetningar á þessu stigi. Hins vegar mætti telja að einkaaðili á markaði gæti þjónustað þá gesti á sínu landi sem hafa nýtt sér Laugardalinn hingað til, frekar en að borgin útvegi land, setji upp grunnþjónustu og sinni rekstri,“ segir skipulagsfulltrúi í umsögn sinni.