Ríkissáttasemjari hefur sent frá sér tilkynningu þar sem yfirlýsingu Eflingar um ólögmæti miðlunartillögu stofnunnarinnar er vísað á bug.

Fyrr í dag var því haldið fram af Eflingu að miðlunartilagan væri ólögmæt, og þá voru vinnubrögð hans gagnrýnd.

„Miðlunartillaga er eitt þeirra úrræða sem ríkissáttasemjara standa til boða til að freista þess að tryggja frið á vinnumarkaði.“ segir í tilkynnignu sáttasemjara. „Við þær aðstæður sem upp voru komnar í deilu SA og Eflingar var það mat embættisins að óhjákvæmilegt væri að reyna á þetta úrræði.“

Í tilkynningunni er jafnframt bent á að vinnulöggjöfin leggi sáttasemjara þær skyldur að ráðgast við aðila kjaradeilu áður en miðlunartillaga er lögð fram. „Sáttasemjari kallaði fulltrúa beggja aðila til fundar við sig í þessu skyni áður en miðlunartillagan var birt opinberlega.“

Þó kemur fram að þó að sáttasemjari þurfi að ráðgast við aðila málsins hafi þeir ekki íhlutunarrétt eða neitunarvald um miðlunartillögu. „Með vísan til þessa verður að vísa á bug fullyrðingum um að framsetning miðlunartillögunnar sé ólögmæt á nokkurn hátt.“

Eitt af því sem fjallað var um í tilkynningu Eflingar í dag var að ekki myndi nægja að tillögunni yrði hafnað af meirihluta greiddra atkvæða., heldur þyrftu mótatkvæði að vera fjórðungur af öllum á kjörskrá.

„Þetta fyrirkomulag atkvæðagreiðslu er ólýðræðisleg og íþyngjandi, sem setur enn frekari spurningarmerki við það samráðsleysi sem embætti ríkissáttasemjara sýnir gagnvart Eflingu.“ sagði í tilkynningu Eflingar, en sáttasemjari kemur ekki inn á það í tilkynningu sinni.